Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri Wow Air, var svo áhyggjufullur fyrir hönd íslenskrar ferðaþjónustu að hann greip til þess ráðs að bjóða flugferðir til fjarlægra áfangastaða með breiðþotum. Þær áhyggjur urðu flugfélaginu að falli á endanum.

Flugfélagið Wow Air sökum þess að herra Mogensen var að reyna að bjarga íslenskri ferðaþjónustu. Fyrr skal nú rota en dauðrota.

Þeim fjölgar hratt eftiráskýringum Skúla Mogensen, fyrrum forstjóra og eiganda Wow Air, hvers vegna flugfélagið dó drottni sínum. Íslenskir fjölmiðlar fjalla um nýja ræðu herra Mogensen eins og um heimsfrétt sé að ræða: Vísir með þrjár fréttir um málið, Mbl með tvær fréttir og RÚV býður upp á fréttaþrennu eins og Vísir.

Höfum ekkert á móti herra Mogensen per se en hér er einstaklingur sem varð of gráðugur, hlustaði lítt eða ekkert á aðra kringum sig og hvers fyrirtæki féll með þvílíku brauki og bramli að ólíklegustu aðilar eru að skoða lögsóknir á hendur þrotabúinu. Og þetta fyrirtæki númer tvö sem herra Mogensen rekur rakleitt í þrot.

Hvers vegna manneskja sem sett hefur tvö stór fyrirtæki lóðbeint á hausinn þykir mega móðins meðal viðskiptablaðamanna landsins segir allt sem segja þarf um viðskiptablaðamenn landsins. Svo ekkert sé nú minnst á að kauði flutti inn hundruð milljóna á kjarakjörum gegnum Seðlabanka Íslands og geymdi stóran hluta milljarðaveldis síns í skattaskjólum svo hann þyfti nú ekkert að hjálpa okkur hinum með vegina, sjúkrahúsin og skólana.

Sumir þarna úti eru enn að lenda í tjóni vegna falls Wow Air. Skjáskot Twitter

Þvílík eðalmanneskja að engu tali tekur. Það þarf að reisa styttu af manninum við Höfða og fá þjóðskáld til að yrkja bálk um kauða sem verður birtur í Lesbók Moggans.

Hugsað um Ísland og þjóðarhag

„Það er mjög mikilvægt að átta sig á því hvað voru líklega okkar stærstu mistök. Breiðþoturnar. Af hverju? Enginn hefur spurt af hverju við tókum inn breiðþoturnar. Þetta er lykilatriði sem vantar í umræðuna, í fjölmiðlum eða í einhverri bók eða eitthvað. Það verður að spyrja réttu spurninganna. Það hefur enginn spurt af hverju?“

Abbababb herra Mogensen. Við spurðum nákvæmlega þessarar spurningar fyrir einu og hálfu ári síðan. En við gerðum það út í tómið því þú hefur aldrei viljað ræða við gagnrýna aðila þrátt fyrir beiðnir þess efnis. Sú færsla vakti alls enga athygli.

Íslandið úr myndinni?

„Ástæðan er að núna sjáum við minni flugvélar (e.narrow-body), sem fljúga beint á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Þær fara alveg framhjá Íslandi. Ef ég myndi spyrja hérna hverjir myndu velja að fljúga fyrir sama verð, beint flug eða millilendingu, hversu mörg ykkar myndu velja millilendinga. Enginn. Við veljum öll beint flug.“

Við viljum meina að herra Mogensen hafi rangt fyrir sér hér. Víst veljum við velflest beint flug í stað þess að millilenda í einhverju krummaskuði á leiðinni ef túrinn er þetta þrjár til sex klukkustundir. En gerum við það ef að stoppið er á einhverjum frábærum stað sem er megamikið í tísku á samfélagsmiðlum og við þurfum annars að hanga sex til tólf tíma í níðþröngum sætunum? Fátt er jú verra en langflug í sætum sem eru þrengri en nýjustu Levi´s og þjónustu skornari við nögl en á Tryggingastofnun.

Þrjú ár síðan einn úr ritstjórn þurfti flug frá Frankfurt í Þýskalandi til Sao Paulo í Brasilíu. Tvær leiðir færar á svipuðu verði; annars vegar þráðbeint þrettán tíma flugið beint til Sao Paulo eða hins vegar Frankfurt til Lissabon í Portúgal og þaðan áfram sólarhring síðar til Sao Paulo. Umræddur aðili tók stoppið í Lissabon. Ekki aðeins sökum þess að það stytti ömurlega langt flugið til Brasilíu um rúmar þrjár stundir heldur og veitti tækifæri til að heilsa upp á gamla skólafélaga í hinni eiturskemmtilegu Lissabon.

Annar úr ritstjórn ætlaði til Kambódíu frá Finnlandi fyrir skemmstu þegar sá uppgötvaði að fjölmörg flugfélög bjóða þá leiðina með stoppi á svipuðu verði. Turkish Airlines með sólarhringsstoppi í Istanbúl, Emirates með sólarhringsstoppi í Dúbaí eða Air China með stoppi í Shenzen í sólarhring. Og hver hefur ekki áhuga á sólarhring í þessum framandi borgum svona alveg aukalega?

Víst getur vel verið að meirihluti farþega milli Evrópu og Bandaríkjanna eða öfugt þyki beint flug algjört lágmark. En ýmsar kannanir erlendis benda til þess að það sé einmitt að verða megamóðins að fara óhefðbundnar leiðir á ferðalögum. Það hafa allir verið í París og Feneyjum, allir heimsótt Los Angeles og Balí, allir dúllað sér í London og Róm. En það hafa ekki allir stoppað á Grænlandi, Íslandi eða í Færeyjum.

Herra Mogensen skautar yfir þá staðreynd að Íslandið er megaheitt hvort sem okkur líkar betur eða verr og verður sannarlega áfram enda einstakt land. Ef einhver ferðaþjónustufyrirtæki fara rakleitt á hausinn ef smávegis samdráttur verður á fjölda erlendra gesta til landsins er sama ferðaþjónustufyrirtæki afar illa rekið. Því hvaða heimili gerir alltaf ráð fyrir blússandi siglingu…