Á ári hverju eyðir Ísavía, ergo íslenska ríkið, hundruð milljóna í öryggiskerfi og gæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Við höfum það frá áreiðanlegum heimildum að EKKI EINU SINNI síðustu níu ár hafi fundist sprengja, byssur, hnífar eða annað það sem getur ógnað öryggi farþega í flugi í handfarangri farþega.

Sautján árum eftir hryðjuverkin í New York er öryggisgæsla í flugstöðvum eins og það hafi gerst í gær.

NÍU ÁR af mjög harðri öryggisleit í Leifsstöð í kjölfar væls frá Bandaríkjamönnum. Allir úr skónum, fartölvur og rafeindatæki úr töskum, vandræðaleg líkamsleit með reglulegu millibili. Milljarðar króna í laun öryggisfulltrúa og tugir milljóna í öryggisskanna. Fyrir utan óþægilegheit viðskiptavina plús langar raðir á köflum.

Er það ásættanlegur kostnaður þegar ekki einum farþega á níu árum hefur verið meinað að fljúga sökum vopna eða vafasamra hluta í handfarangri?

Hvers vegna þurfum við að láta þukla okkur fram og aftur af bláókunnugum, illa-borguðum unglingum í Leifsstöð vegna þess að Bandaríkjamenn heyja stríð um allar trissur? Þess utan er kerfið ekkert að virka. Ekki pikkuðu flottir skannar í Leifsstöð upp sex túbur af fljótandi geli í tösku eins úr ritstjórnar fyrir viku síðan. Túbur sem alla jafna mega ekki vera í handfarangri sökum þess að sniðugir hryðjuverkamenn geta búið til sprengjur úr slíku á flugi…

Þetta er alvarlegt rugl og fokdýrt fyrir lítið þjóðfélag. Eða hvað væri hægt að hjálpa mörgum heimilislausum fyrir nokkra milljarða króna?

Klárlega er hætta á hryðjuverkum til staðar en ef hryðjuverkamenn komast ekki í flugvélar þá aka þeir bara niður fólk á götum úti. Plús sú staðreynd að hryðjuverkamenn gæti varla fundið Ísland á korti.

Tími til kominn að hörð öryggisleit beinist aðeins að þeim er ætla til Bandaríkjanna. Flug til annarra friðsælli þjóða ætti að vera orðið verulega öruggt átján árum eftir 9/11 hvað sem paranojuðum Bandaríkjamönnum finnst.