Hmmm? Bréf í Icelandair tóku allt í einu kipp upp á við þennan föstudaginn og hækkaði hvert hlutabréf upp í 1 krónu og 80 aura úr 1.64. Sem er bæði merkilegt vegna þess að aðeins Nasdaq brúkar ennþá aura en ekki síður sökum þess að ekkert nýtt kom fram opinberlega í dag til stuðnings flugfélaginu.

Eftir mikið hrap er gengi Icelandair allt í einu upp á við sísona.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn kannski að verða eins og þeir bandarísku sem eru orðnir algjörlega ótengdir efnahag landsins og lifa sínu eigin lífi. Skammt síðan Dow Jones setti met á hlutabréfamörkuðum vestanhafs sama dag og 22 milljónir Bandaríkjamanna sóttu um atvinnuleysisbætur.

Hvað getur skýrt tiltölulega feitt stökk upp á mörkuðum hjá Icelandair þennan daginn?

Ekki nokkur skapaður hlutur. Í það minnst ekkert sem fjölmiðlar vita af eða greina frá. Engar stórgóðar fréttir um opnun flugvalla hist og her svo flugfélagið geti nú farið að bjóða flug hingað og þangað. Ekkert nýtt frá stjórnvöldum um fjármagn. Ekkert merkilegt sem hægt er að hlera hjá fjárfestum sem við þekkjum til.

Hvers vegna í ósköpunum er þá gengi Icelandair að hækka upp úr þurru þennan daginn? Er einhver þarna úti með innherjaupplýsingar sem fáir vita af?

Okkur er spurn þegar hlutabréf flugfélags fer sísona á flug. Ólíkt því sem gerist í raunveruleikanum þar sem rellur Icelandair safna ryki og ryði á flugvöllum hér og þar.