Mörg okkar eru lítið fyrir að prófa nýja hluti erlendis og vilja helst ganga að sinni góðu, ódýru nautasteik vísri alla daga ferðalagsins. En fyrir okkur hin sem gerum í því að prófa matargerð á mismunandi stöðum er fráleitt að heimsækja Hamborg án þess að prófa labskaus.

Dæmigerður réttur frá norðurhluta Þýskalands sem rekja má aftur um aldir.

Eins og gefur að skilja hefur matargerð á norrænum slóðum ekki náð langt á heimsfrægðarskalanum almennt og fyrir því sú einfalda staðreynd að algengur matur á kaldari slóðum er oft æði einfaldur og of á mörkum þess að geta flokkast góður eða ljúffengur.

Hamborg fellur undir þennan stimpil. Ef frá er talinn hamborgarinn sjálfur sem aðrir hafa gert að gómsætum skyndibita ríður fólk ekki feitum hesti frá hefðbundinni matargerð frá borginni. Matargerð sem kallast labskaus.

Íslenskir sjómenn sem löngum sigldu til Hamborgar gætu þekkt fyrirbærið enda labskaus nátengt sjómönnum af öllu þjóðerni. Það var nefninlega svo að áður en nútíminn reið í hús þurftu matargerðarmenn í Hamborg að útbúa mat á heimleiðinni fyrir þau skip og báta sem hingað komu með varning. Mat sem þurfti í tilfellum að endast vel vikum og jafnvel mánuðum saman og þess utan vera ódýr enda útgerðirnar yfirleitt ekki að blæða mikið í mat fyrir mannskapinn.

Ergo: labskaus.

Þó til séu mismunandi útgáfur af labskaus er meginuppistaðan léttsaltað nautakjöt, rauðrófur, laukur og kartöflur og í tilfellum slatti af síld með í kaupunum. Svona fyrir örlátustu útgerðirnar fylgdi linsoðið eða steikt egg með í öllu klabbinu.

Þessi blanda líklega lítt spennandi í messanum á lekum dalli á miðju Atlantshafi fyrir 40 árum en góðu heilli hafa matargerðarmenn í Hamborg verið að vakna til vitundar um þennan „þjóðarrétt“ á nýjan leik og labskaus má nú panta á allnokkrum veitingastöðum Hamborgar. Þar gjarnan bætt við örlitlu extra af fínheitum og kryddi og bæði laukurinn og kartöflurnar hægeldaðar eftir nútíma kúnstum.

Niðurstaðan er barasta bráðgóð. Í það minnsta á tveimur labskaus veitingastöðum sem Fararheill hefur prófað í borginni og við mælum óhikað með hafi fólk áhuga að prófa tveggja alda gamlan rétt. Staðirnir sem um ræðir eru VLET og Old Commercial Room. Báðir afgreiða hreint ágæta aðra vinsæla rétti en fyrir forvitna gera báðir mikið út á labskaus.

Svona ef þér dettur í hug að þú sért eitthvað skrýtin/-nn að vilja prófa mat sem þreyttir sjófarar þurftu að gera sér að góðu um tæplega tveggja alda skeið ertu í góðum hópi fólks. Heil hátíð tileinkuð labskaus fer fram í hafnarbænum Wilhelmshaven ár hvert í júlí 🙂