Með fullri virðingu fyrir ódrykkjufólki þá verður ferð til Þýskalands aldrei ýkja merkileg nema fólk prófi að súpa einn heimabruggaðan bjór eða svo. Sé þorstinn meiri en svo er ferð í bjórgarð, biergarten, þjóðráð svo ekki sé minnst á Oktoberfest sem er einfaldlega ekkert annað en hátíð bjórsins.

Varla er til sá staður í Þýskalandi þar sem bjórgarðar finnast og ótrúlega oft í boði bjór bruggaður á staðnum.

Varla er til sá staður í Þýskalandi þar sem bjórgarðar finnast og ótrúlega oft í boði bjór bruggaður á staðnum.

En hvert skal halda til að bragða þýskan eðalmjöð þegar um er að velja yfir tólf hundruð bjórgerðir í landinu sem hver um sig býður fleiri en eina tegund og oftast margar?

Fyrsta stopp fyrir þann með nettan áhuga yrði Munchen og nágrenni. Bavaría er mekka bjórs í landinu og það er hvergi sýnilegra en á hinu fræga Oktoberfest sem hefst í september ár hvert. Þar komast áhugasamir langt yfir skammt hvað bjór og bjórtegundir varðar og fá jafnframt skyndikennslu í bjórfræðum og sögu ef þeir svo kjósa í Bier & Oktoberfestmuseum. Það er líka í Munchen sem fólk finnur Hofbräuhaus sem er af fróðum sagður frægasti bjórsalur Þýskalands og ólýsanlegt að eyða stund þar við hlið glaðra heimamanna. Sérstakur bjór, Wies’nbier, er bruggaður fyrir hátíðina en ýmsar mismunandi tegundir fást alls staðar ef þessi dökki og sterki mjöður fer illa niður.

Þótt enginn bær í Bavaríu sé svo arfadapur að eiga ekki eðalpöbb og æði oft sinn eigin bæjarmjöð er einn bær sérstaklega sem gerir út á bjórþyrsta. Það er bærinn Bamberg í norðurhluta Bavaríu og í raun nær Frankfurt en Munchen. Þar eru ekki aðeins nokkrir afar vinsælir barir með eigin mjöð á borð við Klosterbräu heldur og Franconian bjórsafnið þar sem finna má allan fróðleik um bjórgerð í héraðinu.

Stundarkorn frá Bamberg er annar bær sem vert er að staldra við í. Það er Bayeruth en í útjaðri þeirrar borgar er að finna eitt merkilegasta bjórsafn Þýskalands;  Maisel Brauerei-und-Büttnerei. Sú verksmiðja framleiðir einn allra vinsælasta hveitibjór landsins og hægt er að fylgjast með framleiðsluferlinu frá A til Ö.

Öllu nær Munchen nálægt borginni Kelheim er að finna fræga klausturbjórbruggverksmiðju, Brauereu Weltenburger, þar sem bjór hefur verið bruggaður með sama hætti í tæp þúsund ár. Þá verksmiðju og klaustrið er hægt að skoða í þaula og staðsetningin við Dóná er tær snilld.

Til suðurs frá Stuttgart í hinum fjallenda Svartaskógi er að finna bæinn Alpirsbach sem einnig ætti að vera á lista bjórunnenda. Þar stendur Alpirsbacher Klosterbräu sem er ein örfárra bruggverksmiðja sem brugga bjór úr tæru lindarvatni. Bragðmunurinn finnst harla auðveldlega.

Þrjár borgir sérstaklega annars staðar í landinu eiga ríka bjórhefð sem vert er að kynna sér. Það eru Köln, Jever og Bremen. Í Köln er þekktastur allra borgarbjórinn Kölsch en hann brugga yfir 20 bruggverksmiðjur í borginni hver á sinn hátt. Enginn skortur er á skemmtilegum stöðum í borginni til að þjóra og um að gera að þvælast milli staða því hver og einn hefur sinn sjarma.

Borgina Jever þekkja líklega drykkfelldir íslenskir sjófarendur mætavel. Jever er höfuðborg Fríslandshéraðs og stendur ekki langt frá Bremer- og Cuxhaven sem hafa lengi verið á áætlun íslenskra fiski- og flutningaskipa. Héraðið allt er þekkt fyrir hinn ljósa pilsnerbjór sinn sem er kannski ekki allra. Í borginni er að finna Friesisches Brauhaus sem er fremst meðal jafningja og hægt að fá túr um verksmiðjuna sem einnig hýsir lítið safn.

Það er svo í Bremen sem kannski þekktasti bjór Þýskalands á heimsvísu er framleiddur og verksmiðjan engin smásmíði. Það er Becks sem þar er afgreiddur í kúta, flöskur og dollur í massavís og með framleiðslunni er hægt að fylgjast en túrinn sá tekur litlar tvær klukkustundir. Drykkja er leyfð á meðan.

Skál!