Það má eyða lunga ævinnar að leita uppi strandsvæði á Spáni þar sem ekki finnast átta hundruð hótel á einum og sama blettinum, maturinn er drasl og írskir barir tvöfalt fleiri en spænskir.

Eðalstrendur og yndislegur andvari. Og engin hótel og lélegir veitingastaðir um allar trissur.
Eðalstrendur og yndislegur andvari. Og engin hótel og lélegir veitingastaðir um allar trissur.

Það er að segja nema fólk viti af Formentera. Þessi litla systir Ibiza er nánast allt sem stóra systirin er ekki. Engin argandi diskótek um allar trissur. Engar rútur í tonnatali að ferja gesti til og frá. Engir uppáþrengjandi götusalar eftir fólki 24/7. Engar raðir af hótelum við allar strendur.

Spænskir hér áttuðu sig á því áður en það var of seint hve aðdráttarafl staða sem ekki eru niðursoðnir í nútíma ferðamannaumbúðir fer vaxandi og orðinn ríkur þáttur í ferðalögum þeirra sem mikið ferðast.

Þess vegna er ekki einu sinni hingað komist með flugvél og varla einu sinni með ferju frá meginlandinu nema mjög óreglulega. Fólk verður að hafa aðeins fyrir hlutunum til að njóta þessa staðar. Eins og að fljúga eða taka ferju til Ibiza og þaðan komast með annarri ferju yfir til Formentera. Sá túr tekur um 20 til 30 mínútur en munurinn á eyjunum tveimur er áberandi löngu áður en komið er í land.

Ekki svo að skilja að hér séu ekki hótel. Þau skipta tugum en keðjuhótel eru hér fá og gistikostirnir takmarkast að mestu við lítil og meðalstór hótel sem ekki yfirgnæfa umhverfið. Hér eru raunverulega góðir veitingastaðir vegna þess að hér verður enginn ríkur á augabragði með vel staðsettum skyndibitastað. Þar skemmir heldur ekki fyrir að ólíkt öðrum stöðum á Spáni er Formentera æði vinsæll staður meðal Ítala og þeir láta ekki alveg hvað sem er ofan í sig.

Ofangreint hefur valdið því að það er opinber stefna eyjaskeggja að Formentera verði meðan mögulegt er róleg og rómantísk í hrópandi mótsögn við stóru systur. Það hefur tekist. Meðan heimsfrægir plötusnúðar spila fram á morgun í klúbbum Ibiza fram í október er á Formentera varla ferðamaður sjáanlegur um miðjan september. Öllu líklegra að sjá bændur og fiskimenn. Sem er yndislegt. Fararheill mælir heils hugar með dvöl hér vilji fólk vita hvernig Spánn var fyrir 40 árum síðan áður en fjöldatúrismi fór með mesta sjarmann.

One Response to “Formentera ef þú ert með upp í kok af fjöldatúrisma”

  1. Fuerteventura,

    Takk fyrir góðar umfjallanir. Vitið þið eitthvað um Fuerteventura