Við köllum þetta að spila rassinn úr skónum. Wow Air Skúla Mogensen hefur enn og aftur fallið í fang síns helsta samkeppnisaðila, Icelandair, til að bjarga því sem bjargað verður.

Verða þessi tvö flugfélög eitt og hið sama í framtíðinni? Samsett mynd

Fregnir kvöldsins áhyggjuefni fyrir alla: Wow Air leitar enn á ný til Icelandair með nauðlendingu eftir að bandarískur vogunarsjóður dró sig út úr viðræðum um yfirtöku þess fyrrnefnda.

Vel skiljanlegt að Skúli Mogensen, stærsti eigandi Wow Air, vilji fyrir alla muni bjarga munum sínum úr hraðbrennandi húsi.

Ekki óskiljanlegt heldur að Icelandair sjái tækifæri í því að yfirtaka sinn helsta keppinaut og það á algjöru tombóluverði.

Verra að það sé íslenska ríkið sem virðist hafa haft milligöngu um björgunarleiðangurinn. Wow Air virðist, ef marka má fréttir, of mikilvægt til að falla að mati stjórnarliða. Hinn frjálsi markaður sjálfstæðismanna gufaður upp í himinhvolfið og um að gera að beita sósíalískum aðferðum við að bjarga stórfyrirtækjum.

Ef bara sömu rökum væri beitt þegar Jón Jónsson í Hrútardal og Svana Gylfadóttir á Stokkseyri standa á barmi gjaldþrots…

Jákvætt eða neikvætt fyrir flugfélögin?

Í sjálfu sér ekki slæmt að Wow Air haldi lífi þó undir verndarvæng Icelandair sé. Flugfélag Mogensen gert margt rétt og margt rangt en engum vafa undirorpið að það er Wow Air að þakka, eða um að kenna, að stórum hluta að hingað flykkjast erlendir ferðamenn í massavís. Jafnvel þó sömu ferðamenn versli nú frekar í Bónus og Krónunni en á dýrum veitingastöðum.

Bæði flugfélög glíma við alvarlegan vanda. Wow Air slefar næstu mánaðarmót en ekki mikið lengur samkvæmt fregnum og Icelandair veðjaði á rangan hest með kaupum á fjölda Boeing Max véla sem nú standa allar og safna ryki.

Samruni eða yfirtaka í samhengi hlutanna í dag meikar fullan sens. Icelandair á tonn af seðlum sem þeir vita ekkert hvað á að gera við og Wow Air þarf seðla eins og kórallar þurfa hreinan sjó. Bæði fyrirtæki græða jafnvel þó erfitt sé að sjá að herra Mogensen gangi heill frá slíkum samruna.

Jákvætt eða neikvætt fyrir okkur hin?

Aðalatriðið er þó hvort við neytendur, íslenskir eða erlendir, njótum góðs af þessu framtaki stjórnvalda.

Er Icelandair nógu stórt eða vel rekið til að geta haldið úti sérstöku lággjaldaflugfélagi sé það hugmyndin? Töluvert stærri flugfélögum en Icelandair hefur mistekist það verkefni og ekki fá stjórnendur Icelandair sérstaklega háar einkunnir fyrir rekstur samanber hlutabréfaverð á markaði.

Ætlar Icelandair að sjoppa hræ Wow Air til þess eins og innlima og gera út vélar Wow Air sem sínar eigin? Það þýðir minni samkeppni, hærri fargjöld fyrir alla og mun draga úr ferðagleði landans og ásókn erlendra ferðamanna til landsins.

Í upphafi skal endinn skoða

Hundrað prósent ljóst að Skúli Mogensen er enginn rekstrarmaður þrátt fyrir þúsund orður og stóryrði í fjölmiðlum. Hér maður sem gaf sér að það sem færi upp, færi endalaust upp og gerði aldrei ráðstafanir fyrir niðursveiflu. Svona dálítið eins og bankasnillarnir okkar árið 2006.

Hundrað prósent ljóst líka að forráðamenn Icelandair eru handónýtir rekstrarmenn. Eða hvað útskýrir að eitt stykki bréf í flugfélaginu kostar það sama nú og bréfin kostuðu ÁÐUR en ferðamannasprengjan hófst árið 2013.

Geta handónýtir rekstrarmenn með peninga milli handa breytt handónýtum rekstri annars flugfélags til hins betra svo allir njóti?

Við höfum okkar efasemdir hér…