Um svipað leyti og Íslendingar kljást við hvað grimmastan veturinn í janúar og febrúar eru íbúar í Sviss og stöku nágrannahéruðum í Frakklandi og Þýskalandi að setja sig í stellingar fyrir hátíð sem gengur undir nafninu Fasnacht.

Upp, upp mín sál í svartasta skammedeginu. Það tekst mætavel í Basel. Mynd Antoine Blanchard
Upp, upp mín sál í svartasta skammedeginu. Það tekst mætavel í Basel. Mynd Antoine Blanchard

Hátíðin er táknræn fyrir endalok vetrar og komu vorsins og íbúar klæða sig upp í alls kyns miskrúttlega kynjabúninga með það fyrir augum að hræða veturinn burt.

Það er í Basel í Sviss sem mesta og stærsta hátíðin fer fram ár hvert og ávallt á fyrsta mánudegi eftir Öskudag. Stendur hún í þrjá daga og er einn af þeim tileinkaður börnunum. Þykir Fasnacht ótrúlega skemmtileg og íbúar Basel sem öllu jöfnu þykja í kaldari kantinum henda af sér öllu oki og brosa ekki síður en Brasilíumenn á sínu karnivali þó hitastigið í þessum tveimur löndum sé tvennt ólíkt.

Um 20 þúsund manns klæða sig upp fyrir viðburðinn ár hvert og mega þau ekki koma upp um sig meðan hátíðin stendur yfir. Þykir það hin mesta hneisa að koma upp um sig og virða menn það eftir megni. Um tvær skrúðgöngur er að ræða fyrstu tvo dagana og hafa þær báðar ákveðin þemu árlega. Kasta áhorfendur skrúði ýmis konar um allar götur meðan skrúðgangan fer fram. Áhorfendur verða þó sjálfir að hafa varann á sér þar sem ákveðinn hópur fólks, Waggis, fara um og henda litlum sykurbollum í alla sem fyrir verða. Reyndar eru sá hópur líka með epli, appelsínur og annars konar ávexti sem hent er til fólks en ekki í það.

Hátíðin hefst aðfararnótt mánudags klukkan 4 þegar öll ljós í gamla bæjarhlutanum eru slökkt. Eina lýsingin þá eru lampar göngufólksins og skapar það eðlilega mikla stemmningu. Er hátíðin þar með hafin.

Á þriðjudeginum er dagurinn tileinkaður börnum og fjölskyldum og marséra þær þá um göturnar í stað grímuklæddra ófreskja.

Mikil fræði eru að baki öllu því sem gerist meðan á karnivalinu stendur og lesa má sig máttlausan hér.