Óheimilt er að sýna atlot eða snertast á almannafæri, áfengi bannað með öllu, konum skylt að hylja höfuð sitt og helst allan líkamann utandyra, samkynhneigð bönnuð með lögum, aftökur með sverðum fara fram vikulega og margir þekktustu staðirnir lokaðir öllum nema heittrúuðum múslimum. En fyrir utan þessi smáræði vilja Sádar alveg endilega fá þig í heimsókn á næstunni.

Hýðingar á opinberum torgum kjörin afþreying fyrir ferðafólk. Ef það heillar ekki fara fram opinberlega aftökur líka vikulega í helstu borgum. Mynd Pintpress

Lítið um heilar brýr í kolli þeirra sem stjórna Sádí-Arabíu. Ef ekki væru þar undir jörðu einhverjar stærstu olíulindir heims væri þetta lið enn að reyna að finna upp eldinn.

Sádarnir hafa þó undanfarin ár vaknað upp við vondan draum. Olían þeirra dýrmæta hefur hríðfallið í verði á sama tíma og allur hinn vestræni heimur er hægt og bítandi að snúa sér frá slíkum orkugjöfum til vænlegri kosta; kosta sem ekki þurrka út allt líf af plánetunni okkar til lengri tíma litið.

Sádar hafa nú þegar tekið skref til að minnka hundrað prósent vægi olíu í efnahag landsins og nýjasta útspilið til að næla í peninga annars staðar frá er ferðaþjónusta.

Einhver hefði kannski haldið að Sádarnir fengju nóg af ferðamönnum. Það eru jú ekki nema tvær til fjórar milljónir múslima sem ár hvert sækja landið heim til að biðja í Mekka. Sá fjöldi er í áskrift hvert ár því múslimum er hreint og beint skylt að heimsækja Mekka að minnsta kosti einu sinni á ævinni og helst oftar.

En nei, það dugar ekki til enda margir þeir múslimar sem Mekka sækja ekki mjög fjáðir og skilja engin ósköp af peningum eftir sig. Nei, Sádar vilja Kínverja, Bandaríkjamenn eða Evrópubúa og aðra þá sem eyða alvöru peningum á ferðalögum. Til þess hafa verið gerðar áætlanir um ægilega uppbyggingu ferðamannaastaða á tilteknum stöðum í landinu. Litlum sextíu eyjum í Rauðahafinu á að breyta í lúxusdvalarstaði fyrir erlenda sóldýrkendur og uppi áætlanir um að byggja heila borg við ströndina sem á að keppa við Las Vegas og Macau sem mekka spilavíta og fíknar. Er þá fátt eitt nefnt.

Það gleymist þó allt þetta sem vesturlandabúar eru vanir. Verður gestum heimilt að spássera á ströndum í bikiní en ekki búrkum? Verður sala áfengis leyfð á afmörkuðum svæðum? Mega erlendar konur keyra án þess að eiginmaðurinn sé í farþegasætinu með eftirlit? Ef ferðamaður stelur sápu á hótelinu mun hönd viðkomandi verða hoggin af? Mega blaðamenn heimsækja? Samkynhneigðir?

Svo margar spurningar. Svo lítið um svör.