Að bóka hjá Wow Air eða ekki bóka hjá Wow Air. Það er stóra spurningin og sem fyrr eru innlendir fjölmiðlar verri en gagnslausir.

Forstjóri Wow Air vill frið og fær hann bara sísona. Afar eðlilegt…

Annað stærsta flugfélag landsins staðið á barmi hengiflugs um margra mánaða skeið með hugsanlegum grafalvarlegum afleiðingum fyrir ferðaþjónustu í landinu og ekki síður snarminnkandi samkeppni fyrir landsmenn sem vilja út. Svo ekkert sé minnst á þá þúsundir einstaklinga sem starfa beint eða óbeint fyrir Wow Air.

En hvernig stendur á því að ekki heyrist múkk eða púff um flugfélagið í íslenskum fjölmiðlum um margra vikna skeið?

Er samkomulag í nánd við bandarískan vogunarsjóð? Verður Wow Air íslenskt fyrirtæki áfram með íslensku starfsfólki í kjölfarið? Hvað gerist ef þeir bandarísku hætta skyndilega við allt saman? Ræður herra Mogensen við að halda flugfélaginu á floti við þær kringumstæður?

Með öðrum orðum: er í lagi fyrir okkur Frónbúa að bóka flug með Wow Air í vor, sumar eða næsta haust? Og fáum við peningana okkar til baka ef tilkynnt verður einn góðan veðurdag að flugfélagið sé hætt starfsemi?

Það verður að segjast eins og er að miðað við mikilvægi Wow Air fyrir íslenska ferðaþjónustu fær flugfélagið ótrúlegan frið frá fréttafólki landsins. Forstjórinn vissulega gefið út að ekkert verði gefið upp að svo stöddu en aldeilis fráleitt að beygja sig í duftið vegna þess og bíða átekta. Hér eru jú hundruðir, ef ekki þúsundir, starfa í húfi. Staða Wow Air kallað ítrekað á næturfundi í stjórnarráði landsins. En óski stjórinn eftir friði skal virða það í hvívetna.

Nema hér undir er bara allt of mikið til að leyfa Mogensen og vafasömum vogunasjóði að dúllast bak við tjöldin. Hefur einhverjum fjölmiðli dottið í hug að henda í símtal til Bill Franke, forstjóra Indigo Partners, sem vill kaupa meirihluta í Wow Air gegn ákveðnum skilyrðum? Eða reynt að plata einhvern áhyggjufullan stjórnarmann Wow Air í pizzu, bjór og samtal svona „off the record?” Hvað þá að hafa samband við Samgöngustofu og fá á hreint hvort einhver endurgreiðsla sé hugsanleg ef flugfélagið fer yfir um þegar minnst varir?

Algjörlega galið að gefa Mogensen frið við slíkar kringumstæður. Þetta er ekki hans einkamál.