Þ eir Íslendingar sem þekkja eða hafa heyrt minnst á bæinn Sigüenza í Castilla-La Mancha héraði Spánar, er líklega fólk sem setið hefur heimavið um áraraðir og lesið sér til ólífis. Það eða fólk sem hefur óþrjótandi áhuga á Spánverjum.

Flottur heillegur kastali frá miðöldum. En þessi bær á sér fleiri leyndarmál 🙂

Bærinn Sigüenza finnst í rúmlega klukkustundar fjarlægð frá höfuðborginni Madríd til norðausturs.

Ekkert frámunalega brilljant við bæinn atarna svona fyrir þá sem aka hjá. Stór hæð með sæmilega heillegum gömlum kastala og bæjarbúar plantað húsum sínum niður hæðina. Sem sagt; bara eins og margir aðrir smærri bæir og þorp á Spáni.

Eða hvað?

Hér kemur sér vel að vita eitt og annað um söguna. Þannig hættir Sigüenza strax að vera „eins og næsti smábær” og byrjar að trekkja fyrir alvöru.

Hvað er svo svona sérstakt?

Tvennt aðallega. Annars vegar sú staðreynd að þetta fimm þúsund íbúa þorp er fyrir mörgum Spánverjum Þingvellir landsins. Hins vegar sú staðreynd að hér finnst eitt magnaðasta Parador sem finnst á Íberíuskaganum öllum. Parador þar sem fólk bókstaflega gistir í eldgömlum kastala með öllum hugsanlegum þægindum.

Þingvellir Spánar? Von að þú klórir þér í kollinum. Það er jú ekki eins og Spánn hafi verið vagga lýðræðis og mannréttinda um aldaraðir. Landsmenn tiltölulega nýskriðnir undan harðstjórn Franco hins ömurlega og enn er konungur þar við völd.

Staðreyndin er að það var í kastalanum í Sigüenza sem helstu ráðamenn þjóðarinnar komu saman til að negla í stein fyrstu lýðræðislegu stjórnarskrá Spánar í kjölfar þess að einræðisherrann Franco dó drottni sínum 1975. Hér sátu helstu gúrúar Spánar og lögðu grunninn að því lýðræðisríki sem landið er í dag og þykir hafa tekist bærilega til (ef frá er talið smá vesen með Baska og Katalóna.)

En ef stjórnmálasaga Spánar er ekkert að heilla ferðalanga þá er ein ástæða önnur fyrir að eyða hér næturstund eða tveimur. Sú staðreynd að í Sigüenza er að finna einn allra merkasta gististað landsins. Ekki bara vegna þess að hér lögðu sig helstu stjórnmálamenn og konungur Spánar meðan verið var að hamra saman ásættanlega stjórnarskrá heldur og vegna þess að óvíða er hægt að leggjast til svefns í því sem var og er raunverulegur miðaldakastali.

Jamm, þú giskaðir rétt! Það er hægt að gista í hluta þessa aldagamla kastala og njóta fimm stjörnu þjónustu allan tímann. Sem auðvitað útskýrir hvers vegna mektarmenn á sínum tíma kusu þennan fjallabæ til að smíða stjórnarskrá. Þá hjálpar að fá toppþjónustu og anda að sér sögunni eins og svifryki í Peking.

Og þvílík gisting!!!

Eyðum ekki mörgum orðum heldur látum nægja að sýna meðfylgjandi myndband til að sanna mál okkar. Hafa skal hugfast að þetta er almennt dýr áfangastaður. Nóttin fæst niður í fimmtán þúsund kall en algengara er að punga út 20 til 30 þúsund krónum á annatímum. En í staðinn ertu að gista á sögufrægum stað og gleymir því aldrei. Jafnvel þó bærinn sjálfur fái aldrei nein sérstök verðlaun 🙂