H ingað til hefur ekki verið ýkja auðvelt fyrir Íslendinga að ferðast um aðra hluta Frakklands en París og nágrenni. En þá gleymist stundum að við komumst beint til Genfar og þaðan er bara skottúr til eðalfínna franskra borga. Eins og Lyon.

Hér er topp tíu listi okkar yfir merkilega hluti að sjá eða gera á þeim bænum.

Andrúmsloftið í Lyon er yndislegt og enginn þarf að efast um að hér er vel gert við alla í mat og drykk.

Andrúmsloftið í Lyon er yndislegt og enginn þarf að efast um að hér er vel gert við alla í mat og drykk.

1. VIEUX LYON – Gamli borgarhlutinn í Lyon er ekki sá fallegasti en hann er sannarlega yndislegur og það eru ekki slæm skipti. Hluti hans er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og engin lygi að hér er merkileg saga við hvert fótmál. Hér þvældust um og fengu hugmyndir menn á borð við Moliere og Lumiere bræður sem voru sporgöngumenn í ljósmyndun og kvikmyndagerð. Sjálfir segja heimamenn að hvergi annars staðar í veröldinni séu fleiri byggingar á einum bletti sem eru nánast allar í endurreisnarstíl. Hér er gott að hvíla lúin bein og njóta.

2. FOURVIÉRE HÆÐ – Nánast beint fyrir ofan gamla borgarhlutann rís þessi myndarlega hæð og er þangað komist upp eða niður á einfaldan og ljúfan hátt með gamaldags toglest. Það var á þessari hæð sem Rómverjar komu sér fyrst fyrir hér um slóðir 43 árum fyrir Krist og hér má enn sjá leifar frá rómverskum tímum. Fyrir utan kostulega útsýn yfir borgina er á hæðinni bæði fallegasta kirkja Lyon, Fourviére basilíkan, og svar borgarbúa við Eiffel turni Parísarbúa í Tour Métallique de Fourviére turninum.

3. ÓPERUHÚSIÐ – Hið ágæta óperuhús borgarbúa er auðfundið úr fjarlægð á merkilegu hvolfþaki sínu í laginu eins og hálf tunna. Innandyra að hluta er bæði afar fallegt en að sama skapi er kjallarinn mjög sérstakur því hann er kolsvartur í hólf og gólf. Flest stórstirni tónlistarheimsins stíga hér reglulega á svið.

4. MUSÉE DES BEAUX ARTS – Eitt allra besta listasafn í Frakklandi öllu og er þá mikið sagt í þessu listhneigða landi. Verk safnsins af ýmsum toga hvaðanæva að og verk meistara á borð við El Greco, Rubens, Duret og Rodin bæði að finna innandyra og utan. Fráleitt dýr skemmtun því aðgangseyririnn rétt rúmar þúsund krónur.

5. CROIX ROUSSE – Lyon var lengi vel mekka silkiiðnaðar í heiminum og hér á einum tímapunkti yfir þrettán hundruð vefstofur sem framleiddu gæðavörur fyrir hvern sem vildi. Sú tíð er liðin þó enn finnist stöku silkivefarar hér enn þann dag í dag. Croix Rousse var silkihverfið áður fyrr og þar, eins og í gamla borgarhlutanum, eru göturnar yndislega þröngar og skapa sérstakt andrúmsloft. Göngutúr hér tekur þó aðeins á og víða talsvert bratt upp að fara. Fræðast má ítarlega um þessa sögu borgarinnar á sérstöku safni, Musées des Tissus et des Arts décoratifs.

6. PART DIEU – Fáir Íslendingar geta staðist freistinguna að kíkja í verslanir og í Lyon er Part Dieu staður staðanna í því tilliti. Þetta er stór verslunarkjarni með virkilega fjölbreyttu úrvali verslana og verðlag hér er almennt lægra en til dæmis í sambærilegum verslunum í París.

7. LE SIRIUS – Göngutúr á bökkum Rínar verður seint talin leiðinleg iðja en enn betra er þó að stika rakleitt að fljótabátnum Sirius. Það er gamall dallur sem breytt hefur verið í útkaffihús, tónleikabát og eitraðri diskóbúllu um helgar. Fjarri því að leiðast hér mikið. Lesirius.com.

8. MUSÉE AFRICAIN DE LYON – Enn eitt forvitnilegt safnið hér um slóðir er Afríkusafnið sem er eins og nafnið ber með sér tileinkað hlutum frá þeirri ágætu álfu. Frakkar voru sem kunnugt er ein þeirra þjóða sem gerðu hvað mest strandhögg þar á öldum áður og snéru aftur með allt sem merkilegt þótti. Þetta er elsta safn sinnar tegundar í landinu.

9. INSTITUT LUMIERE – Safn og kvikmyndahús tileinkað hinum frægu höfundum kvikmyndarinnar, Lumiere bræðrum, sem hér í borg uppgötvuðu tæknina og tóku jafnframt allra fyrstu kvikmynd sögunnar. Safnið er ítarlegt og ekki amaleg er villa þeirra bræðra. Hér eru enn þann dag í dag sýndar stanslítið kvikmyndir í sömu byggingu og sú fyrsta var sýnd á sínum tíma.

10. LE BEAUJOLAIS – Það jaðrar við kjánaskap að leggja ekki á sig stutt ferðalag til þessa fræga vínhéraðs skammt fyrir norðan borgina sé fólk á annað borð í Lyon. Vínunnendur ættu að taka frá meiri tíma en stutta ferð því ýmsir bæir hér um slóðir eru himnaríki á jörð og vínrækt er hér flestum í blóð borin.