H eimur versnandi fer. Þar með talið einhverjir mögnuðustu þjóðgarðar veraldar. Eins og til dæmis hinn einstaki Yellowstone í Bandaríkjunum.
Risastór Bandaríkin á sína flottu punkta og einn sá allra flottasti er Yellowstone-þjóðgarðurinn sem nær til hvorki fleiri né færri en þriggja fylkja landsins: Montana, Idaho og Wyoming.
Náttúrufegurð er hér hundrað prósent í hólf og gólf. Djúpir grösugir dalir, risavaxnir klettar og gnæfandi fjöll, yfir þrjátíu tegundir af trjám, 80 tegundir spendýra, sex þúsund önnur þekkt kvikindi á vappinu svo ekkert sé nú minnst á hundruð kílómetra langa göngustíga um garðinn þveran og endilangan. Já, og auðvitað heitu hverirnir sem, merkilegt nokk, finnast líka í Bandaríkjunum. Ekki nema TÍU ÞÚSUND þeirra í Yellowstone einum.
Sem sagt: brilljant staður fyrir náttúruunnendur og sportista sem elska frískt loft og göngu- og fjallaleiðir um allar trissur.
En hængur er nú á…
Vísindamenn vestanhafs hafa reiknað út að með áframhaldandi hlýnun jarðar séu einungis 30 ár eða svo áður en Yellowstone tekur stakkaskiptum til hins verra. Haldi hlýnun jarðar áfram með sama hætti og síðustu 30 árin munu allir skógar í Yellowstone deyja út á næstu þrjátíu árum eða svo og með þeim 80 prósent af öllu dýralífi sem þrífst í sömu skógum. Elgir, dádýr, birnir, úlfar meðal þeirra dýra sem lifa á því sem þéttur skógurinn veitir og sá skógur verður farinn fjandans til eftir 30 – 40 ár eða svo. Graslendi mun taka við og á því lifa fá villt dýr á þeim slóðum.
Þjóðráð að drífa sig í einn túr eða svo og monta sig svo af því við barnabörnin síðarmeir að hafa tölt um Yellowstone þegar þar var líf og ljúflegheit. Því afkomendur okkar munu aðeins kynnast slíku af gömlum YouTube-myndböndum…