Þ að fer ekki hvaða vínáhugamaður sem er niður í kjallara hótel Parísar Monte Carlo í Mónakó. Heimsóknir þangað eru takmarkaðar við þá sem reiðubúnir eru að greiða fyrir og 650 þúsund króna gjaldið er ekki alveg miðað við íslensk veski almúgans.

Hið stórglæsilega hótel París í Mónakó. Undir hótelinu eru stórar og miklar víngeymslur og aðeins kostar 650 þúsund krónur að fá að skoða.

Hið stórglæsilega hótel París í Mónakó. Undir hótelinu eru stórar og miklar víngeymslur og aðeins kostar 650 þúsund krónur að fá að skoða.

Það er dágóður skildingur fyrir heimsókn í vínkjallara en hafa ber í huga að þetta er ekki hvaða kjallarahola sem er. Hótel París í Mónakó er heimsþekkt meðal fólks sem loðið er um lófana og hér gista engir nema hafa engar áhyggur af kostnaði við eitt eða neitt.

Þess vegna kemst hótelið upp með að heimta 650 þúsund krónur fyrir kjallaralabbið en þeir sem því punga út fá þó örlítið fyrir sinn snúð. Kjallarinn telur jú heila fimmtán hundrað fermetra af göngum og geymslum og alls staðar er að finna rekka af fínum vínum. Svo fínum vínum reyndar að þau hér eru yfirleitt ekki til sölu eða brúks nema í besta falli ef milljarðamæringur vill slá um sig og negla eina flösku á tilteknar milljónir króna. Það þarf þó að panta eitthvað extra til að slá metið. Franskur auðjöfur keypti hér eina flösku af gömlu og góðu víni árið 2004 fyrir litlar 84 milljónir króna.

Þá er til hér flaska af  Château Bel Marquis Aligre sem fáir kannast sennilega við enda vínið frá árinu 1835. Það vín fæst ekki keypt. Hins vegar geta moldríkir fengið sér eitt glas eða svo af Château Margaux sem er aðeins frá árinu 1929. Betra er að auka heimildina verulega á kortinu áður en það er pantað.

Kjallarinn er því í raun gullnáma af fágætum vínum og svo annt er hótelinu um vín sín að hvorki færri en átta manns starfa í kjallaranum alla daga vikunnar til að gæta að hitastigi, raka og öðru því sem áhrif getur haft á gömul vín á gömlum flöskum.

Það er hins vegar ekkert sem bannar að skoða hótelið sjálft sem er afar falleg smíð og þess virði að fá sér kaffibolla liggi leiðin um furstadæmið í framtíðinni.

Heimasíða þess hér.