Þ að vita sælkerar að óvíða í heiminum er að finna betri mat en á frönskum veitingahúsum þó auðvitað séu þau upp og niður eins og annars staðar. En ólíkt mörgum öðrum taka franskir sinn mat mjög alvarlega og hafa nú skorið upp herör gegn matsölustöðum sem ekki nota ferskt og glænýtt hráefni.

Merkið sem tryggir gæðin. Eða það vona Frakkar allavega.

Merkið sem tryggir gæðin. Eða það vona Frakkar allavega.

Næsta skipti sem þú sækir franskan veitingastað heim gætir þú tekið eftir nýju merki í gluggum staðarins eða á matseðlum. Það merki, pottur með heimilislegu þaki, mega aðeins útvaldir veitingastaðir notast við og á að tryggja að maturinn sem fólk borðar þar er sannarlega eldaður á staðnum úr allra ferskasta hráefni hverju sinni.

Merkið er samvinnuverkefni stjórnvalda og hagsmunaaðila sem hafa haft af því áhyggjur um hríð að fleiri og fleiri veitingastaðir í Frakklandi sem annars staðar bjóða í sífellt meira mæli aðkeypt tilbúin hráefni í mat sinn og jafnvel gera ekki annað en hita upp aðkeyptan mat og selja sem sinn eigin. Maturinn er með öðrum orðum ekki búinn til á staðnum sem er jú upprunalega hugmyndin með veitingastað.

En hér bregðast krosstré sem önnur og ástæðan ofur einfaldlega sú að með því að liggja með tilbúinn mat í frysti er hægt að fækka starfsfólki og vinnustundum þeirra til muna. Ergo; meiri hagnaður fyrir minni vinnu.

Slíkt hefur mjög verið að ryðja sér til rúms og kemur hugmyndin upprunalega frá skyndibitastöðum. Staðir á borð við Subway, McDonalds, KFC og aðrir slíkir eru löngu búnir að útbúa matinn eða hráefnið í matinn þegar viðskiptavinurinn kemur inn og fær sér í svanginn. Slíkt á því í raun afar lítið skylt við ferskleika þó öðru sé haldið fram.

En altsvo hafa Frakkar fengið nóg og vilja vernda það sem gott er og ekta og því besta mál fyrir fólk sem ekki kærir sig um dýran upphitaðan mat á veitingastað að leggja merkið á minnið.