F yrir marga er tilhugsunin um að starfa um borð í skemmtiferðaskipi vægast sagt heillandi. Iðandi líf alla daga, fólk kynnist ógrynni af bæði vinnufélögum og gestum og mörg störfin um borð eru ekki beint leiðinleg heldur.

Störf um borð í skemmtiferðaskipi eru æði mörg og misjöfn.
Ekki er langt síðan Gréta Salóme júróvisjónstjarna vann um borð í einu slíku skipi og sagði aðspurð starfið vera spennandi og fjölbreytt. Hún var náttúrulega í góðri stöðu um borð en það eru ekki öll störfin svo spennandi og fjölbreytt eins og gefur að skilja.
Velflest slík störf eru undantekningarlaust láglaunastörf. Þó í þeirri merkingu að þó greidd mánaðarleg laun séu sjaldan upp á marga fiska er auðvitað frítt fæði og „húsnæði“ á meðan á siglingum stendur. Húsnæðið reyndar oftast nær koja með fjórum til sex öðrum en háttsettir starfsmenn fá þó sitt eigið herbergi.
Gott betur en það reyndar hjá velflestum þessum stóru skipafélögum. Þau vita sem er að það þarf líka að hafa ofan af fyrir starfsfólkinu og í mörgum stærri skipum eru sérstakir barir, skemmtistaðir og kvikmyndasalir eingöngu fyrir staffið.
Þá má heldur ekki gleyma að þjórfé spilar stóra rullu í skemmtiferðaskipum. Þar túlka menn þjórfé sem nauðsynlega greiðslu fyrir hitt og þetta en ekki sérstaka greiðslu fyrir góða þjónustu eins og þjórfé á að ganga út á. Hluti þess sem farþegar greiða í þjórfé skiptist á milli starfsfólks að siglingu lokinni og það getur á köflum hækkað launin verulega.
Störfin sem í boði eru reglulega hjá stærri skipafélögum eru fjölmörg og henta mörgum sem vilja út og sjá heiminn jafnvel þó vinna þurfi mikið fyrir. Söngvarar, dansarar, dansherrar, kokkar, þjónar, skemmtileiðtogar, barfólk, leiðbeinendur og svo mætti lengi áfram telja.
Algengur vinnutími eru tólf tímar per dag en getur farið upp í 15 tíma og niður í sex til átta þegar best lætur. Laun fara eftir hvaðan fólk er og hvaða störfum þau sinna. Það er að segja að fólk frá Bandaríkjunum og Evrópu nýtur hærri launa en fólk frá Afríku og Asíu. Lægstu mánaðarlaun hjá nokkrum þeim stærstu í bransanum eru frá 600$ til 1200$ eða milli 80 til 140 þúsund krónur. Ofan á það leggst svo fyrrnefnt þjórfé og ekki er óalgengt að starfsfólk standi uppi með 300 til 400 þúsund þegar upp er staðið eftir góða túra.
Þetta hljómar kannski ekki merkilega en þegar við bætist þetta „fría“ eins og matur og koja og í sumum tilfellum flug til og frá heimalandi ef fólk hefur starfað lengi hjá skipafélagi erum við komin langleiðina í góð íslensk meðallaun.
Fjölmargir aðilar auglýsa störf í þessum geira en mikið hefur borið á svindlurum líka. Fyrirtæki sem heimta þóknun fyrir upplýsingar um laus störf en gera ekkert annað en hirða peningana og enginn fær nokkrar upplýsingar og þaðan af síður störf. Eftir því sem Fararheill kemst næst eftir töluverða skoðun er þetta fyrirtæki gott til brúksins ef einhver þarna úti hefur drauma um siglingar á rúmsjó.