E inhver gæti haldið að til að finna dánarstað hins heilaga Jesú Krists þurfi að grafa upp Ísrael eins og það leggur sig eða mögulega fjöll og firnindi í Tyrklandi. Það reginn misskilningur. Karlanginn liggur hinstu hvílu í bænum Shingo í Japan.

Hér liggur Jesú Kristur hinstu hvílu samkvæmt íbúum Shingo. Skjáskot

Nú verða einhverjir lesendur vorir eldrauðir í andliti og blóta okkur í sand og ösku fyrir að leggja nafn Jesú Krists við hégóma og þvaður. Og auðvitað aflæka okkur á fésbók í stórum stíl.

Þeir um það.

Staðreyndin er samt sú að íbúar í litlum bæ í norðvesturhluta Japans fullyrða allir sem einn að grafreitur Jesú litla sé barasta rétt utan við bæjarmörkin.

Shingo heitir bærinn og telur heila 2.400 íbúa. Þetta er fátækur fjallabær sem varla finnst á korti. En á helgum stað rétt utan við bæinn er búið að girða af lítinn grafreit og stór kross stendur upp úr jörðinni. Það liggur einstaklingur sem fyrir tveimur öldum var fátækur fjárhirðir sem settist hér að til að rækta lauka. Hann varð yfir sig ástfanginn af dóttur nágrannabónda, giftist henni og þau eignuðust þrjú börn áður en karl varð dauðanum að bráð 106 ára gamall. Hér um slóðir er hans minnst sem Daitenku Taro Jurai, en annars staðar í heiminum er hann þekktur sem Jesú Kristur.

Nei, við erum ekki einu sinni að grínast. Heimamenn í Shingo eru þess fullvissir að hér liggi sonur skapara himins og jarðar en gera sér kannski ekki grein fyrir að sá á að hafa risið upp frá dauðum og því alls ómögulegt fyrir kauða að leggjast hinstu hvílu í Japan. Fyrir utan auðvitað að frá Jeríkó eru litlir 9 þúsund kílómetrar til Shingo og næsta fráleitt að helsærður Jesú Kristur hafi getað dúllað sér alla leiðina til Japans. Jafnvel þó hann hafi getað gengið á vatni.

En ef við gefum okkur að Jesús hafi orkað það ferðalag þá er stór spurning hvers vegna hann settist að hér og fór að rækta vorlauka?

En kannski veit Japaninn meira en Biblían um afdrif Jesú Krists. Í öllu falli koma hingað tæplega 30 þúsund manns í pílagrímaferð árlega. Þeir skoða eðlilega gröf Jesús en þeir sækja líka heim safn eitt tileinkað þessari guðlegu veru sem gekk um jörðina og boðaði fagnaðarerindið. Safnið auðfundið í miðbæ Shingo.

Góða skemmtun.