S jö þúsund sólbrenndar eyjur með sandströndum sem eru mýkri en ungabarn við fæðingu og verðlag svo lágt að þú þarft meira að leita í klinkið en veskið. Velkomin til Filippseyja 🙂

Sumir kalla eyjuna Siargao á Filippseyjum himnaríki á jörð

Ein úr ritstjórn var að lenda á köldum klakanum frá ylhýrum Filippseyjum. Mánaðartúr um eyjurnar Luzon, Tablas, Leyte og Siargao og hólímólí hvað allt reyndist dásamlegt.

Á næstu vikum hendum við fram greinum um ferðalagið, hvað var frábærast og hvað var minna frábært við land og þjóð.

En við byrjum á að benda lesendum á að einn risaplús við þvæling um hinar mörgu dásamlegu eyjar Filippseyja er sá að bæði flug og skipaferðir milli eyjanna kosta skid og ingenting 🙂

Flugið

Frá höfuðborginni Manila á eynni Luzon kostar flugfar til hinnar vinsælu Leyte og aftur til baka á milli fjögur og sex þúsund krónur. Frá Manila til hinnar kostulegu Siargao fæst flug fram og aftur með smá fyrirvara allt niður í tólf þúsund krónur. Frá Manila til hinnar geysivinsælu Puerto Princesa fæst flug báðar leiðir allt niður í tíu þúsund krónur. Hér er um eins og til tveggja stunda flugferðir að ræða hvora leið fyrir sig.

Með öðrum orðum: það vel hægt að skottast um fjölmargar kostulegur eyjur Filippseyja fyrir kanil og klink. Og með það hugfast að íslenskir ferðalangar geta dvalið í landinu í 30 daga vandræðalaust er kjánalegt annað en að nýta sér hlægilega lág flugfargjöldin.

Ferjur og bátar

Enn hlægilegri eru fargjöld með skipum og bátum. Bátstúr frá Luzon til Puerto Princesa svo dæmi sé tekið kostar með smá fyrirvara rúmar fimm þúsund krónur. Það kann að virðast dýrt fyrir ókunnuga en þá ber að hafa hugfast að hver ferð aðra leiðina tekur rétt tæplega SÓLARHRING ef vel viðrar.

Ferjutúr fram og aftur milli Luzon og Leyte kostar þetta fjögur til fimm þúsund krónur báðar leiðir með smá fyrirvara en túrinn tekur 23 stundir svona gróflega á meðaltíma.

Verðlag í landinu er hreint og beint stórkostlegt fyrir krónuþénara. Hér borðar þú kvöldmat á veitingastað frá sjö hundruð krónum og bjór- eða vínglas óvíða dýrara en þrjú hundruð krónur. Mun lægra ef þú ert utan alfararleiða.

Út með þig og fylgstu með okkur því vegvísar um Filippseyjar detta inn á næstu dögum og vikum 🙂