H ann heitir Son Doong og eftir að hafa kortlagt hann í þaula hafa fræðingar komist að því að sá er stærsti hellir heims sem enn er vitað um. Hann finnst langt inni í frumskógum Víetnam.
Hellirinn ægilegi, sem er hvorki meira né minna en 80 metra breiður og rétt tæplega tveggja kílómetra langur, fannst fyrir hreina tilviljun árið 1991 af bónda nokkrum á vappinu en það var ekki fyrr en í apríl 2009 sem fyrstu leiðangrar vísindamanna hófu skoðun hans fyrir alvöru.
Reyndar er til mun breiðari hellir á eynni Borneó í Malasíu. Sá er 92 metra breiður á stærstum kafla en hann er einnig mun styttri og því fer titillinn til Son Doong miðað við forsendur vísindafólks.
Hellaskoðunarmenn fara nú í hrönnum til Víetnam að skoða fyrirbærið en hann er troðfullur af forvitnilegum steinamyndunum og guð má vita hverju öðru. Þar rennur einnig stór neðanjarðará í gegn á stórum kafla og vonast fræðimenn til að finna þar áður óþekktar dýrategundir.
Óljóst er hvort og þá hvenær hægt verður að bjóða almennu ferðafólki að skoða en töluverður spotti er að hellinum frá næsta þorpi og bæði um þröngan veg og frumskóg að fara.
View Staðsetning hellisins in a larger map





