Venjan er á ferðamiðlum og ferðabloggum hvers konar að bjóða upp á greinar um ómissandi hluti í þessari borg eða hinni eða í þessu og hinu landinu. Það er samt oft á tíðum nær lagi að lista upp hluti sem ókunnir ferðalangar ættu að forðast á viðkomandi stað.

The Strip, eða Strippið, er gatan þar sem allt gerist í þessari syndaborg í Bandaríkjunum. Mynd Chris Russellrobinson
Hér að neðan eru fimm ábendingar um hluti sem forðast ætti að gera í syndaborginni Las Vegas í Bandaríkjunum.
♦ Ekki brúka hraðbankana í spilavítunum. Þar kostar hver einasta færsla sem nemur frá 600 til 900 íslenskra króna sem rennur auðvitað beint í vasa spilavítiseigandans. Hraðbankarnir úti á götum við Strippið eru hins vegar reknir af hefðbundnum bönkum og greiðast því aðeins hefðbundin færslugjöld sem eru samt alveg nóg takk.
♦ Slepptu lúgubrúðkaupi. Fátt er vinsælla eftir djamm og djúserí en láta pússa sig saman við næstu fallegu mey og það á fimm mínútum fyrir aðeins sjö þúsund kall. En brúðkaup er ekki hamborgari og betri helmingurinn verðskuldar betra en það.
♦ Ekki velja ódýrasta hlaðborðið. Það hljómar vel í eyrum blankra Íslendinga að smella sér á risahlaðborð sem víða er í boði fyrir allt niður í 1.300 krónur en þú færð það sem þú borgar fyrir og líklega skitu seinnipartinn.
♦ Slepptu netrápi í hótelherberginu. Netaðgangur á flestum hótelum í Vegas er ekki bara dýr, 2.200 krónur per klukkustund er algengt, heldur er hraðinn takmarkaður og merkilegt nokk er þráðlaust net almennt ekki í boði á öllum hótelum hér.
♦ Þó aðeins sé örstutt á flugvöllinn frá Strippinu, aðalgötu borgarinnar, er vænlegt að gefa sér góðan tíma því raðir á flugvellinum í Las Vegas eru jafnan lengri en annars staðar. Þá er ekki nóg að rúlla gegnum öryggisleit því þú átt enn eftir að fara með einreið í rétta flugstöðvarbyggingu.