Skip to main content

V andasamt að elska ferðalög þessi dægrin. Aldrei auðveldara að koma hinum og þessum staðnum á framfæri gegnum samfélagsmiðla og hitta svo tíu þúsund aðra ferðamenn á slóðum sem þú hélst að væru tiltölulega afviknir. En stöku dásamlegir staðir finnast þó enn án þess að þar sé rekist í mann og annan með myndavél eða snjallsíma á lofti.

Borgir ágætar en oft of mikill ys og þys. Við elskum hið gagnstæða.

Það er ástæða fyrir að ekkert þeirra þorpa sem við hér teljum upp eru ekki á fötulista ferðafólks enn sem komið er. Helst vegna þess að yngra fólkið, það fólk sem oftast ferðast þessa síðustu og verstu, þarf oftar en ekki eitthvað meira en magnaða náttúru. Það þarf helst að halda í höndina á þeim af ferðaþjónustuaðilum. Þeir sem eldri eru vita að tíminn er orðinn knappur og gefa sér því ekki nægilegt tóm til að planta rassi á ókunnum slóðum. Auðveldara að taka enn eina pakkaferðina til Kanarí.

Í öllu falli; hér sex þorp sem ritstjórn Fararheill hefur kynnst undanfarin áratug eða svo. Þorp sem voru ekkert sérstaklega á dagskránni við brottför en reyndust svo ljúf og yndisleg að við stoppuðum í sólarhring hið minnsta og í einu tilfelli í heila viku.

GUARDA – SVISS

Guarda hefur reyndar verið að koma töluvert inn hjá ferðafólki á allra síðustu árum en þegar við dvöldum hér 2011 var eini félagsskapurinn eldri þýsk hjón á 40 manna hóteli. Afskaplega lítið við að hafa svona almennt en fegurð svissnesku Alpanna og ekki síður fegurð þessa gamla þorps í tiltölulega brattri hlíð er kyngimögnuð.

KERTEMINDE – DANMÖRK

Kerteminde er ekki á dagskrá eins né neins nema þeirra Dana sem til þekkja. Þessi strandbær á Fjóni státar ekki aðeins af nálægð við fyrirtaks strendur heldur og eldgömlum miðbæ sem ólíkt öðrum slíkum miðbæjum er ekki ennþá sálarlaust safn. Gamli bær Kerteminde er á pari við gamla bæ Árósa nema enn er líf í tuskum í þeim fyrrnefnda.

EGUISHEIM – FRAKKLAND

Miðaldaþorp? Leitaðu ekki lengra en til þessa tiltölulega óþekkta þorps í Alsace-héraði Frakklands. Aldrei heyrt um þorpið Eguisheim. Gott og blessað en heimildir herma að það hafi verið hér sem framsæknir aðilar hófu fyrst víngerð í þessum hluta Frakklands. Víngerð sem er í dag heimsþekkt. Aldeilis frábær staður til að varpa mæði og gott betur.

ERICE – ÍTALÍA

Ítalir segja að gyðan Venus kyssi allt gegnum skýin. Sé það rétt er fjallaþorpið Erice á Sikiley í sleik hægri vinstri 365 daga á ári. Þetta sikileyska fjallaþorp í 800 metra hæð á vesturströnd Sikileyjar býður ekki aðeins upp á fimm stjörnu útsýn í allar áttir heldur státar líka af nokkrum hangandi húsum sem svo eru kölluð. Það er að segja byggingum sem byggð hafa verið á ystu nöf þverhnípis. Þorpið allt á örfáum fermetrum flatlendis en ólíkt mörgum öðrum miðaldaþorpum Ítalíu hafa íbúarnir engan áhuga að fara annað. Þeir telja 28 þúsund þrátt fyrir smæð þorpsins.

TELC – TÉKKLAND

Tékkar tala oft um bæinn sem tíminn gleymdi. Sá bær heitir Telc og er nær Vínarborg í Austurríki og Bratislava í Slóvakíu en höfuðborg Tékklands. Þorpið státar af stórkostlegu torgi sem er í heild sinni á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og ekki síðra augnkonfekt er kostulegt sautjándu aldar setur, Chateau de Chenonceau. Þá eru heimamenn vingjarnlegir mjög og finnst enn töluvert til koma að erlendir ferðamenn sæki pleisið heim.

FORNALUTX – SPÁNN

Við hér áður fjallað um þau leiðindi að heimsækja hina sólríku spænsku eyju Mallorca án þess að snerta svo mikið sem litlutá á tilþrifamesta svæði þessarar litlu eyju. Tramuntana-fjallgarðurinn sker Mallorca duglega á vesturströndinni og í þeim fjallasölum má finna aldeilis kostulegar litlar perlur sem enginn veit af. Fornalutx er einn slíkra. Agnarlítið þorp með 700 íbúa sem nánast allir lifa eins og tíminn standi í stað. Stöku ferðamenn rekur vissulega á þessa fjöru en í svo litlum mæli að þú heyrir aðeins spænsku á miðbæjartorginu á annatíma um helgar. Toppstopp ef djamm og djús er ekki alveg að gera sig en stutt í stuðið ef þér finnst erfitt að anda inn og út og taka lífinu með ró.