Einn úr ritstjórn gekk árið 2002 fram á mikinn steinhnulling á graslendi við golfvöll einn skammt frá Árósum í Danmörku. Lítt merkilegt kannski nema fyrir þá staðreynd að tveggja tonna hnullungurinn lá ofan á átta öðrum minni hnullungum.

„Gravmonument” í Danmörku. Um landið allt má finna fjöldann allan af mörg þúsund ára gröfum og grafhýsum. Mynd DR

Danaveldi er ekki gamalt fyrirbæri í neinni merkingu. Elstu þekktu merkin um orðið Danmörk í landinu sjálfu eru frá árinu þúsund eins og lesa má um á Wikipedia. Nafnið því tæknilega ekki til þegar Íslandið góða var numið tæpum tvö hundruð árum fyrr hið minnsta.

En Danmörk var auðvitað til sem land löngu fyrir þann tíma og þar strituðu hjúin Nielsen og Mette til að hafa í sig og á. Heilum FIMM ÞÚSUND ÁRUM ÁÐUR nánar tiltekið. Á sama tíma og egypskir faraóar voru enn að klóra sér í haus með teikningar af píramídum.

„Gravmonument” er gróflega grafhýsi á danska tungu og slík finnast vítt og breitt um það sem í dag kallast Danmörk. Ekki grafhýsi á borð við þau nútímalegu sem eru skreytt í hólf og gólf með ítölskum marmara. Öllu frekar djúpar manngengnar grafir eða það sem merkilegra er; grafir sem umkringdar eru steinhnullungum sem tugi og jafnvel hundruði manna hefur þurft til að bera og koma á sinn stað á sínum tíma.

Dálítið mikið merkilegt í Danaveldi ef þú spyrð okkur. Þau öll hægt að heimsækja og sum þeirra manngeng enn þann dag í dag. Fornminjastofnun landsins reyndar gert skurk í því undanfarin ár að gera aðgengi auðvelt og gott.

Töluvert merkilegri túr en enn eitt skotteríið í næsta Magasin…

Hér prýðilegt kort yfir eldgamla merkisstaði þessa gamla föðurlands okkar Íslendinga.