Í lok mars 2019 kom ég heim eftir mína fjórðu ferð til Brasilíu um ævina. Í þetta skiptið dvaldi ég í rúmar tvær vikur og ferðaðist ásamt vinafólki frá Ríó de Janeiro suður til Florianópolis þar sem við leigðum litla villu með frábæru útsýni yfir hafið.
Eftir Þórð Gunnarsson
Á leiðinni eyddum við fjórum dögum í Curitiba og síðar í Joinville og Itajaí sem eru aðeins sunnar í landinu nær ströndinni áður en við enduðum í Florianópolis.
Hugmyndin var nú reyndar ekki að fara með ferðasöguna hér heldur hitt að bera á móti þeim er telja að Brasilía sé einfaldlega allt of hættulega til heimsóknar.
Um það ganga sögur hvar sem ég kem. Flestir virðast trúa að útlendingum sé mikil hætta búin í Brasilíu en það get ég staðfest að aðeins einu sinni í öllum mínum ferðum hefur farið aðeins um mig. Það var þegar lögreglumaður stöðvaði mig nokkuð utan alfaraleiða og fór fram á „vegagjald“ til að fjölskylda hans fengi nú að borða. Hann sagði það bara blátt áfram og ég dró það ekkert í efa.
Þótt ekkert væri raunverulegt vegagjald greiddi ég lögreglumanninum nokkra seðla og við það leyfði hann okkur að halda förinni áfram. Að öðru leyti hef ég eða ferðafélagar mínir aldrei verið í neinni hættu neins staðar og við höfum farið ansi og gist á stöðum sem ekki eru merkilegir á að líta.
Góðum tíma hef ég eytt í Ríó og fyrir utan stöku veskjaþjóf er fátt þar að óttast nema farið sé inn í favelurnar í hæðunum. Ég hef dvalist í Recife og ekið mikið um nágrennið þar án tíðinda. Curitiba var hreint yndisleg frá A til Ö og tvær vikur í Belem með tveggja daga ferðalagi inn í Amazon frumskóginn gáfu mér ekkert nema góðar minningar.
Ég vona því að þetta litla innlegg mitt auki traust fólks sem langar til landsins. Vissulega eru hættur þarna fyrir hendi en úr henni er of mikið gert. Allt of mikið. Slíkt má ekki koma í veg fyrir að njóta og það kunna Brasilíumenn betur en flestir. Og þú nýtur með.