A llir ferðalangar þekkja þetta. Búið að þramma um allar trissur í steikjandi hita, lítið þrek eftir, verkir í fótum og baki og enn töluverður spotti í hótelið.

Fjölmargar heimsins áhyggjur og þreyta hverfa ótrúlega skjótt eftir gott nudd á góðum stað. Mynd Jong-Lanthink

Fjölmargar heimsins áhyggjur og þreyta hverfa ótrúlega skjótt eftir gott nudd á góðum stað. Mynd Jong-Lanthink

Í flestum löndum heims yrði viðkomandi að gjöra svo vel að A) taka leigubíl, B) setjast strax á næsta bar eða veitingastað eða C) láta sig hafa meira þramm alla leið.

En ekki í Tælandi.

Þetta land sem kennir sig við eilíft bros býr yfir afskaplega mörgum yndislegum hlutum og þar á meðal ógrynni af nuddurum hvarvetna og hvenær sem er.

Heilnudd, fótanudd, gufunudd, steinanudd og hvað allt þetta heitir er í boði hér víðast hvar. Ekkert hótel neins staðar þykir merkilegt sé ekki heilsulind til staðar og þar nuddarar af guðs náð. Líka er yfirleitt alltaf hægt að fá nuddara upp á herbergi sé þess óskað og þar er ekki verið að meina kynlífsnuddara haldi einhver svo þó fjöldinn allur af þeim séu líka til staðar víða.

Hótelin eru þó eins og alltaf dýr. Klukkustundar nuddpakki á góðu hóteli á heilsulind skjagar langleiðina í átta þúsund krónur eða svo en fer þó aðeins eftir stjörnugjöf hótelsins. Því fleiri stjörnur, því dýrara. Til eru lúxus heilsulindahótel þar sem nuddtími kostar tugþúsundir.

Hluti ritstjórnar dvaldi um tíma utan þjónustusvæðis í Tælandi ef svo má að orði komast eða á afskekktri ströndu í 40 mínútna fjarlægð frá næsta bæ. Þangað var nákvæmlega ekkert mál að fá þrjá nuddara snemma morguns og klukkutíminn hjá hverjum og einum nuddara 1.800 krónur. Fyrsta flokks nudd í öllum tilfellum.

Í Bangkok, Phuket og Pattaya eru mjög víða nuddstofur og lætur nærri að minnst eina slíka sé að finna í 100 metra radíus frá öllum stærri hótelum. Þar er boðið upp á alls kyns nudd en fátt er meiri bót lúnum ferðalöngum en einfalt hálftíma fótanudd. Verð á þeirri nauðsynjaþjónustu rokkar frá 400 krónum og upp í 900 krónur eftir staðsetningu. En það nudd eftir þramm heilan dag er líka vítamínsprauta frá himnaríki. Slíkar nuddstofur er líka víða að finna í smærri bæjum landsins.

Hvað kynlífsnudd varðar er það víða opinskátt í boði. Þar eins og annars staðar fer kostnaðurinn eftir ýmsu og ekki hvað síst á hvaða hóteli er dvalið. Því lélegra hótel því ódýrara nuddið.

Engin ástæða er til að hafa áhyggjur af slíkri nuddstarfsemi. Þær sem stunda kynlífsnudd halda sig á sérstökum stöðum og trufla ekki hinn venjulega ferðamann. Eftir því þarf sérstaklega að leita. Aðrar nuddstofur eru hreinar og fínar og þjónustan öll fagleg fram í fingurgóma. Plús þetta yndislega bros heimamanna sem oft getur líka eitt og sér fært ferðafólki birtu eftir langan dag.