A lveg eins og Geysir okkar Íslendinga er ástæða þess að heitir hverir um heim allan kallast geysers á enskri tungu á bærinn Spa í Belgíu heiðurinn af því að allar heilsulindir heims kallast spa.

Á helsta heilsulindarsvæði Belgíu kostar sama meðferð og við fáum hér í sundlaugunum að lágmarki þrjú þúsund krónur eða svo.
Líkt og raunin er með marga belgíska bæi og borgir er mesti glansinn farinn af smábænum Spa í suðausturhluta landsins en þótt fátt bendi til þess nú var þetta á sínum tíma mekka jarðar fyrir jarðböð og heilsulindir og væru menn þar vel settir hefði verið hægt á sínum tíma að fá einkaleyfi á nafninu.
Þess í stað hafa framtakssamir í Spa gert hvers kyns heilsulindir í bænum að lúxusvöru ólíkt því sem víðast gerist og það virkar eins og segull á þá sem ríkari eru. Heilsulindin Thermes de Spa er einna þekktust þeirra sem ekki kosta handlegg og fótlegg en þar kostar aðgangur að heitum laugum, hitaböðum og hefðbundinni sundlaug í þrjár stundir tæpar þrjú þúsund krónur á mann. Sem sagt gróflega svipuð þjónusta og við fáum í næstu sundlaug. Önnur meðferð í boði hér kostar annað eins að lágmarki.
Sem er ekki svo mjög í frásögur færandi og ætti vart að fæla forvitna Íslendinga frá heimsókn. Svo má ekki gleyma vatninu frá Spa sem markaðssett er sem allra meina bót og á að vera eitt það allra hollasta í Evrópu. En við hér á Íslandi getum bara brosað að því.
Frá Brussel er komist hingað með lest eða akandi. Lestin hæg og stoppar víða og tekur túrinn upp undir tvær stundir. Fljótlegra að aka sé þess kostur.