Skip to main content

S vo furðulegt sem það nú er þá vita næstum allir af ljúfum siglingum um Signu í París og hversu frábrugðið og oft betra er að sigla hjá þekktum stöðum í stað þess að ganga eða aka. Afar fáir vita hins vegar að þetta sama er hægt á Thames í London.

Milli staða í London á besta hugsanlega máta. Mynd Paul Gravestock

Milli staða í London á besta hugsanlega máta. Mynd Paul Gravestock

Allir sem gengið hafa á bökkum Thames vita að þar er umferð báta nokkuð stíf alla liðlanga daga. Hluti þeirra báta sem þar fljóta um eru skráðir opinberlega sem strætisvagnar þó bátar séu. Með öðrum orðum þá ganga þeir milli staða eftir áætlun eins og strætó.

Enn aðrir aðilar bjóða hoppa af/hoppa á bátsferðir í stíl við ferðavagnana sem ganga nánast í öllum borgum Evrópu. Eitt slíkt fyrirtæki er Thames Clippers sem býður nokkrar mismunandi bátsferðir eftir Thames frá morgna og fram á kvöld. Slík sigling sameinar kosti þess að sjá Big Ben eða The Eye frá nýstárlegu sjónarhorni úr bátnum en ekki síður möguleikann að stíga frá borði þegar eitthvað þarfnast frekari skoðunar og halda svo ferðinni áfram með næsta bát.

Fullorðinsmiði í slíka siglingu kostar ekki nema 2.200 krónur á virkum dögum og aðeins meira um helgar sem er sáralítill peningur og bátarnir eru engir dallar heldur. Sjálfsagt að skoða þennan möguleika og ekki gleyma að London að kvöldi til getur verið sæmilega rómantísk líka frá Thames þó ekki komist hún með tærnar þar sem París hefur hælana.