Æ  en sætt, hugsaði ég með mér þegar ég settist niður og leit yfir matseðilinn. Happy eating! Hamingjusamar pizzur voru á boðstólnum.

Froskar, tarantúlur, steikar vespur, hamingjupizzur. Má bjóða þér eitthvað fleira?

Froskar, tarantúlur, steikar vespur, hamingjupizzur. Má bjóða þér eitthvað fleira?

Eftir Andreu Róbertsdóttur

En skemmtilegt. Ég hafði ekki hugmynd á því augnabliki að „Happy pizza“ og „Very happy pizza“ væru pítsur með marijúana. Ég pantaði mér margarítu sem ekki var þunglynd þrátt fyrir að vera ekki hamingjupizza.

Ferðaþjónusta er að komast á gott skrið í Kambódíu eftir hörmulegt ástand og hryllilega meðferð sem situr í fólki. Litið er á ferðamannastrauminn sem vítamínsprautu í efnahag landsins. Fyrsta daginn í Phnom Penh fór ég á flesta sögufræga staði höfuðborgarinnar og heimsótti konungshöllina. Í miðasölunni var skilti sem sýndi að bannað væri að vera í stuttbuxum eða með hatt. Ég tók því hattinn af mér. Reykingar, hundar og byssur voru einnig á bannlistanum.

Undir kvöld hvíldi ég lúin bein og lét dekra við mig í fótanuddi. Á meðan drakk ég te og skoðaði lítinn leiðarvísi fyrir ferðamenn. Þar var farið í saumana á því hvernig karlar og konur í Kambódíu eiga að haga sér, heilsa, klæða sig, vinna, borða, sofa og tala. Ráð til kvenna var að halda kjafti, vera sætar, borða lítið og vera ekkert að yrða á karla að fyrra bragði.

Á ómalbikuðum veginum fyrir framan okkur ók pallbíll fullur af svínum á leið í sláturhúsið. Ég hafði leigt mér bíl og bílstjóra og var á leiðinni á Akra dauðans og fannst aðstæður því íronískar í meira lagi.

Akrar dauðans eru í Choeung Ek, nokkra kílómetra fyrir utan höfuðborg Kambódíu. Akrar dauðans er aðeins einn af mörgum stöðum þar sem framin voru fjöldamorð á tímum Rauðu khmeranna, sem voru andspyrnuhreyfing, kommúnískir skæruliðar undir stjórn Pol Pot.