Þ að kemur ávallt jafn mikið á óvart hversu víða einstaklingar frá fámennri þjóð úti í ballarhafi hafa komið sér fyrir víða í heiminum. Sé vel leitað má finna Íslendinga á ótrúlegustu stöðum. Þar á meðal í einhverjum glæsilegasta lystigarði Portúgal á eynni Madeira.

Íslendingarnir tveir eru svanir sem hér synda um og njóta heitari vinda en heimavið. Mynd VisitMadeira

Íslendingarnir tveir eru svanir sem hér synda um og njóta heitari vinda en heimavið. Mynd VisitMadeira

Garðurinn, Jardim Tropical Monte Palace, sá finnst í úthverfinu Monte fyrir ofan höfuðborgina Funchal þaðan sem útsýni er heimsklassa yfir borgina og hafið. Það heimsklassa útsýni fer þó fyrir lítið í samanburði við lystigarðinn.

Garðurinn er tileinkaður plöntum og trjám frá hitabeltinu hvaðanæva að úr heiminum og það er ekki lítið plássið sem plönturnar fá til að vaxa og dafna. Garðurinn er 70 þúsund fermetrar að stærð en til samanburðar er Kringlan rétt rúmlega 40 þúsund fermetrar.

Það segir sig því sjálft að taka þarf frá góðan tíma til að njóta alls hér og fráleitt að halda að hér séu aðeins plöntur og tré að sjá. Hreint ekki. Hér er tvö frábær söfn. Annað tileinkað steinefnum jarðar og hitt opið fyrir hvers kyns mismunandi sýningar frá hinum ýmsu heimshlutum. Hér er Monte kastalinn sjálfur sem eitt sinn var frægasta hótel Madeira. Hann hægt að skoða að hluta. Hér líða lækir niður hæðir og syllur, fossar og gosbrunnar um allt og risastór tjörn líka þar sem gefur að líta bæði fiska og ýmsa fugla. Þar á meðal þá tvo Íslendinga sem fyrirsögnin vísar til. Það eru tveir hvítir svanir sem fluttir voru hingað frá Íslandi fyrir mörgum árum. Þeir hvítu eiga svo sannarlega ekki heima hér í þessum íðilgræna garði en það eiga heldur ekki tveir svartir svanir sem hér eru líka. Aldeilis sjón að sjá.

Einn hluti hitabeltisgarðsins er tileinkaður Kína eins og sjá má.

Einn hluti hitabeltisgarðsins er tileinkaður Kína eins og sjá má.

En það er fleira forvitnilegt hér. Á flestum veggjum í garðinum gefur að líta hinar frægu flísar Portúgala, azelejos-flísar, sem vel eru þekktar fyrir að prýða mörg eldri hús í landinu. Hér hægt að sjá slíkar skreyttar flísar allt frá fimmtándu öld og fram til nútímans. Ekki síður áhrifaríkt að sjá sögu Portúgal, svona gróflega, myndskreytta á flísum og aldeilis kjörin leið til að læra um landið og fólkið án þess að glugga augnablik í þreyttar sögubækur.

Hér er aðeins fátt eitt nefnt sem er spennandi við garðinn atarna. Hér er líka lítið kaffihús og þar verönd með fyrsta flokks útsýni og hægt að smakka vínframleiðslu heimamanna. Smakk fylgir meira að segja með aðgöngumiðanum.

Algjörlega ómetanlegt stopp ef þú átt einhvern tíma leið um Funchal og þarft að eyða tíma í dásemd. Ekki skemmir að við hliðina á garðinum flotta er lokastopp hinna frægu útsýnislyfta Funchal og hinu megin gefst færi á að færa niður á við á almennilegum hraða með toboggan sleðum. Það er því hægt að slá þrjár flugur í einu höggi með heimsókn í garðinn.