Breska borgin Norwich er svona þokkalega á pari við borgina Coventry þegar kemur að fegurð og ljúflegheitum. Sem sagt skítapleis nánast út í eitt. En með nútímatækni má fegra miður góða hluti fram úr hófi. Eins og meðfylgjandi brilljant myndband ber með sér.

Fátt amalegt við þessa sýn. En komdu nær og upplifðu tóman viðbjóð og leiðindi. Skjáskot

Myndbandasnillingurinn Rob Whitworth gerir æði vel við borgina Norwich í myndbandinu hér að neðan. Rob þvílíkur snillingur með myndavélar og klippiforrit að ljótustu staðir líta barasta út fyrir að vera næsta pleis á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

En líkt og Kópasker og Raufarhöfn þá er Norwich súper-ömurlegt krummaskuð. Þú ferð bara þangað til að hengja þig eða þaðan af verra.

Norwich Cathedral Flow Motion – A Rob Whitworth Timelapse from Rob Whitworth on Vimeo.

Eða hvernig stendur á því að á myndbandinu flotta er hvergi að sjá heimilislaust fólk? Eða fólk sem er svo út úr heiminum af fíkniefnaneyslu að það sér framtíðina mun glögglegar en Elon Musk?

Jamms, miðborg Norwich er kjaftfull bæði af heimilislausu fólki og útúrdópuðum heimamönnum. Við vitum það sökum þess að einn úr ritstjórn bjó hér um fjögurra vikna skeið sumarið 2019. Í miðborginni þá var ekki þverfótað fyrir vafasömu fólki sem tapaði í lífsgæðakapphlaupinu.

Og þegar ótti og hræðsla grípur hjartað er fátt fallegt sem vinnur mót þeim tilfinningum…