Í hugum margra hefur Írland sterkt aðdráttarafl. Græna eyjan eins og hún er kölluð lumar á ýmsum stórkostlegum náttúruminjum og hér er rík saga og hefðir sem skemmtilegar þykja. Þó sannarlega sé hér að finna lítil þorp sem af bera í yndislegheitum þá gildir hið sama ekki um borgir landsins og alls ekki um Dublin.

Á netinu í dag má víða finna stóra og mikla myndabanka þar sem fólk geymir sínar stafrænu myndir og það er oft á slíkum vefum sem fá má hugmynd um hversu falleg og eða skemmtileg borgir og staðir eru. Þar fellur Dublin stórt á prófinu. Að frátöldum fjölda mynda frá næsta nágrenni við borgina má segja að 80 prósent allra mynda sem finnast af eða frá Dublin séu myndir frá Temple bar- og veitingahúsahverfinu. Áin Liffey og bakkar hennar komast aðeins á blað en þá er að mestu upptalið það sem fólki þykir eftirtektarvert í borginni.

Okkar mat er að hún er fín að heimsækja. Verðlag gott, úrval gott og mannlífið þokkalegt en borgin er ekki falleg per se. Hér missir fólk sjaldan andann yfir kostulegum byggingum þó stöku undantekningar séu á því. Söfn Dublin eru í meðallagi í besta falli og bæði götur og ekki síður áin Liffey í skítugri kantinum.

Plúsinn aftur á móti er fólki sjálft en upp og niður og hvort ferðamenn vilja eða geta komist í góðra manna hóp. Helst er það á pöbbunum.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Dublin er í 25 mínútna fjarlægð frá borginni til norðurs. Fjölmargar leiðir til að komast leiðir sinnar héðan og hingað. Til dæmis keppa hvorki fleiri né færri en fjögur rútufyrirtæki um bissnessinn. Rútur eru því alltaf til staðar og allar fara þær í miðborgina með mismunandi mörgum stoppum á leiðinni. Fyrirtækin eru Airlink, Aircoach, Airport Hopper og DublinBus. Fargjöld svipuð milli fyrirtækja en almennt má segja að önnur leið inn í miðborg eða frá kosti um 900 krónur og um 1.300 krónur báðar leiðir.

Leigubílatúr inn í miðborg kostar á bilinu frá 3.200 til 3.800 krónur og fer eftir umferð en túrinn tekur þetta 20 til 30 mínútur.

Loftslag og ljúflegheit

Golfstraumurinn heldur Írlandi í svipuðum greipum og Íslandi. Hér verður sjaldan mjög kalt en á móti eru sumrin heldur ekki mjög heit. Vorið kemur gróflega mánuði fyrr hér en á Íslandinu og haustið sömuleiðis um mánuði síðar á ferð. Meðalhitastig á ársgrundvelli er 9,5 gráður og sumarhiti að meðaltali kringum sextán gráður.

Samgöngur og snatterí

Dublin er dreifð borg en eins og víðast hvar er það gamli miðbærinn sem heillar hvað mest og innan hans er engin þörf á öðru en tveimur jafnfljótum. Samgöngukerfi hér er gott og strætisvagnar rúlla í öll hverfi. Fargjöld strætó eru misjöfn eftir lengd ferðalags en greitt er með klinki eða afsláttarkortum í vögnunum. Í boði er að kaupa afsláttarkort sem gilda í þrjá daga eða viku. Þriggja daga kort kostar um 4.000 krónur. Strætókortin varla þess virði að okkar mati. Það er einfaldlega ekki nógu mikið merkilegt að sjá til að það borgi sig.

Söfn og sjónarspil

>> Kilmainham fangelsið (Kilmainham Gaol)  –  Einhver kann að segja að gömul fangelsi séu kannski ekki topp áfangastaðir í erlendum borgum en þetta fangelsi er aðdráttarafl að mestu vegna sögu Íra og Dublin. Hér voru hýstir verstu þjóðernissinnarnir í denn tíð og teknir af lífi þegar Írar börðust sem harðast fyrir sjálfstæði frá Bretum. Mikil saga og áhrifaríkt að skoða litla klefana og ekki síður aftökutól og græjur. Opið 9:30 til 18. Ráð að mæta snemma því takmarkaður fjöldi gesta kemst inn í einu. Aðgangseyrir er 1.100 krónur. Heimasíðan.

>> Írska fornleifasafnið (National Museum of Ireland)  –  Írland er sérstakt fyrir margra hluta sakir og hér má finna fjölda áhugaverðra muna frá víkingaöld og jafnvel fyrr en það. Sérstök egypsk álma er hér líka með yfir þrjú þúsund hluti frá því ágæta landi. Söguþyrstir ættu að taka hálfan dag hér hið minnsta. Lokað mánudaga en annars opið daglega milli 10 og 17. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>>  Írska nútímalistasafnið (Irish Museum of Modern Art) –  Tæplega fimm þúsund verk til sýnis hér úr öllum áttum og þar á meðal verk eftir helstu listamenn þjóðarinnar auk erlendra listamanna. Garðurinn hér ekki síður yndislegur. Opið þriðju- til laugardaga milli 10:30 og 17:30. Ókeypis aðgangur. Heimasíðan.

>>  Chester Beatty safnið (Chester Beatty Library)  –  Þetta ágæta safn bóka og rita var valið besta safn Evrópu árið 2002 og það er mikill heiður enda fjöldinn allur af fyrirtaks söfnum um alla álfuna. Hér gefur að líta fornrit stór og smá og mismikilvæg og safnið sjálft fallegt enda staðsett í Dublin kastala. Opið misjafnlega eftir árstíð. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>>  Trinity háskólinn (Trinity College) – Elsti háskólinn í landinu og byggingar hans sannarlega skoðunar verðar. Suma hluta verður að greiða inn á sérstaklega en þeir eru sannarlega þess virði. Bókasafnið er heimsfrægt og sýningar tileinkaðar Oscar Wilde eða Samuel Beckett fróðlegar mjög. Opinn misjafnlega eftir árstíðum. Heimasíðan.

>> Forsetahöllin (Aras an Uachtarán) – Hin opinbera forsetahöll er opin skoðunar flesta daga ársins og eins og flestar hallir verður enginn svikinn af innliti. Meira að segja ferðir með leiðsögn eru ókeypis. Heimasíðan.

>>  Phoenix garður (Phoenix Park)  –  Hinn besti lystigarður og sá elsti í Dublin. Hér indælt að koma að sumarlagi þegar blóm eru í fullum skrúða og hér er ágæt tjörn líka svo dýralíf er nokkuð. Það er líka í þessum garði sem þú finnur dýragarð Dublinborgar. Sá er ekki í heimsklassa en smáfólkinu leiðist ekki rölt þar um.

>> Marino húsið (Casino Marino)  –  Ein sögufrægasta bygging borgarinnar er þessi völundarsmíð frá átjándu öld. Hér ein sextán afar fínlega skreytt herbergi og ýmislegt ber fyrir augu sem varpar ljósi á elítu fyrri tíma en það voru breskir aðalsmenn sem húsið létu byggja. Opið 10 til 17 daglega. 800 krónu aðgangseyrir en leiðsögn er vænleg og það kostar extra. Heimasíðan.

>> Dublin kastali (Dublin Castle)  –  Frægasta bygging Dublin og líklega landsins alls er þessi kastali sem er Bessastaðir þeirra Íra. Það voru víkingar fornra tíma sem fyrst byggðu hér varnarvirki og síðar á öldum bættu Bretar um betur og það aftur og aftur. Hér var aðsetur breska þingsins þegar þeir réðu hér landi og þjóð. Kastalinn og byggingar í kring hafa verið endurbyggðar eða endurreistar alls fjórum sinnum gegnum tíðina. Leiðsögn er um helstu byggingarnar nema opinberar athafnir séu í gangi en þörf að panta fyrirfram. Heimasíðan.

>> Grasagarðurinn (National Botanic Garden)  –  Afar fallegur garður að sumarlagi og yfir fimmtán þúsund mismunand plöntur sem hér blómstra ár hvert. Gamaldags en heillandi gróðurhús hér líka og leiðsögn í boði kæri fólk sig um. Aðgangur frír en leiðsögn kostar. Heimasíðan.

>>  Guinness vöruhúsið (Guinness Storehouse)  –  Efist einhver um að Dublin hafi ekki upp á margt að bjóða gæti sú staðreynd að það er bruggverksmiðja Guinness sem toppar allt hér hvað ferðamannafjölda varðar. Reyndar ekki einu sinni verksmiðjan sjálf heldur vöruhús þeirra sem breytt hefur verið í ágætt safn. Húsið sjálft auðfundið enda risastór Guinness bjórkanna og útsýnisbar á toppnum. Forvitnilegt í besta falli en óttalega klént allt saman. Best er sennilega að frá barnum þeirra gefur að sjá frábært útsýni yfir borgina. St.James Street. Opið daglega 10 til 17 en til 19 yfir sumartímann. Miðaverð 2.200 krónur en glas af Guinness innifalið í miðaverði. Heimasíðan.

>> Garður heilags Stefáns (St.Stephens Garden)  –  Vinsælasti garður borgarinnar og frægasti garður landsins sem hannaður var í viktorískum stíl. Hér er mannfjöldi yfirleitt alltaf þegar sólin skín sem skærast og næði kannski ekki mikið. En umhverfið ljúft og sú staðreynd að garðurinn er í miðbænum sjálfum þýðir að hingað er alltaf stutt að fara. Hægt er að bóka leiðsögn á vefnum. Heimasíðan.

>>  Litla Dublin safnið (Little Museum of Dublin)   –  Þetta safn er ekki mjög auðvelt að setja í neinn sérstakan bás enda breytast þar sýningar reglulega. Segja má að hér sé áherslan á allt þetta litla sem gerst hefur í Dublin gegnum tíðina. Dæmi um slíkar sýningar til dæmis áhrif Guinness bjórsins á stríðsárunum eða upphaf hljómsveitarinnar U2. Skemmtilegt mjög. Safnið við Stephens Green 15 í miðbænum. Aðgangur þúsund krónur. Heimasíðan.

>> Dómkirkja heilags Patreks (St Patrick´s Cathedral)  –  Ein glæsilegasta kirkja landsins og þar með Dublin er vitaskuld dómkirkja borgarinnar sem sést víða að. Hún kennd við heilagan Patrek verndardýrling Írlands og er vissulega glæsileg þó ekki komist hún í hóp þeirra allra fegurstu í Evrópu. Kirkjan er opin daglega en viðburðir ýmsir og athafnir fara oft hér fram og þá ekki mælt með rápi ferðafólks. Leiðsögn er í boði virka daga frá 10 til 14 og engin hætta að trufla eitthvað þann tíma. Heimasíðan.

>> Þjóðminjasafnið (National Gallery of Ireland)  –  Viðamesta safn muna frá Írlandi í landinu og fjöldinn allur af hlutum sem gætu komið örlítið spænskt fyrir sjónir. Nokkur fjöldi verka annars staðar frá í Evrópu og mörg hver eftir mjög þekkta listamenn. Alls um fimmtán þúsund verk í heildina. Gott safn og ráð að taka frá hálfan dag ef áhugi á listum er ríkur. Safnið staðsett í miðborginni í göngufæri fyrir flesta en inngangur er við Clare Street. Opið 10 til 17:30 en frameftir á fimmtudögum. Frítt inn. Heimasíðan.

>>  Brugghús Old Jameson (Old Jameson Distillery)  –  Allir vitibornir neytendur áfengis þekkja Jameson viskíið fræga sem um ár og aldir var framleitt hér í Dublin þó svo sé ekki lengur. Hér gefur enn að líta gömlu brugggræjurnar og fróðleikur um bruggferlið sjálft og söguna um alla veggi. Þá fylgir drykkur með öllum keyptum drykkjum og plagg að auki og aðeins um þrjá bari innandyra að ræða. Það verður þó að segjast að þetta er ægilega túristalegt allt saman og reyndar er hér fullt meira og minna öll sumur svo panta verður miða með góðum fyrirvara. Fararheill mælir frekar með að kaupa staup á næsta írska bar og spyrja gamlan heimamann út í Jameson. Mun skemmtilegra. Bow Street. Opið alla daga 10 til 18. Miðaverð 1.800 krónur. Heimasíðan.

>> Kristskirkjan (Christ Church)  –  Önnur fallegasta kirkja borgarinnar og líka ein sú fallegasta í landinu. Þokkalega áberandi enda staðsett í miðborginni skammt frá Dublinkastala. Fólk skiptist nokkuð í tvær fylkingar hvað varðar þessa kirkju og svo dómkirkjuna sjálfa en sannarlega þess virði að taka sporið hingað og reka inn nef. Hér er hins vegar lítið um Krist sjálfan því það kostar að spígspora hér innandyra og það tæpan þúsundkall. Christchurch Place. Opið daglega 9 til 19. Heimasíðan.

>>  Náttúrufræðisafnið (Natural History Museum)  –  Dýralíf að fornu og nýju í allra sinni mynd á þessu sæmilega safni. Enginn fer héðan út brosandi út að eyrum en ekki slæmt er náttúruminjar Írlands skipa heiðurssess. Safnið stendur í miðbænum við Merrion Street við hlið Þjóðminjasafnsins. Opið 10 til 17 virka daga nema mánudaga en frá hádegi um helgar. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>>  James Joyce setrið (James Joyce Centre)  –  Frægasti rithöfundur Írlands og Dublin er auðvitað Joyce og þetta setur er bæði til þess fallið að varpa ljósi á karlinn, ritstörf hans og líf en ekki síður vera vettvangur rithöfunda og annarra bókhneigðra áhugamanna. Forvitnilegt mjög og reglulega stíga hér á stokk þekktir heimamenn með fyrirlestur. Opið 10 til 17 daglega nema mánudaga. North Great George´s Street 35. Miðaverð 750 krónur. Heimasíðan.

>> Malahide kastalinn (Malahide Castle)  –  Einn allra frægasti kastali Írlands, og enginn skortur á þeim í landinu, er Malahide. Sá er reyndar utanvið Dublin og um hálftíma túr er nauðsyn en þess virði. Kastalinn stendur við samnefndan bæ og á sér ríka sögu enda hófst bygging hans á tólftu öld. Gegnum tíðina hafa mismunandi miklir heiðursmenn kallað þetta heimili en allir vel þekktir í sögu Írlands. Mikill og fínn garður með gamaldags og glæsilegum gróðurhúsum er við Malahide sem einnig er skoðunar virði. Kastalann aðeins hægt að skoða með leiðsögn og panta verður miða með fyrirvara. Miðaverð 1.600 krónur. Heimasíðan.

>>  Þjóðarbókhlaðan (National Library of Ireland)  –  Falleg bygging við Kildare Street og eins og nafnið ber með sér er hér að finna ýmsan fróðleik um land og þjóð. Ekkert til að gera sér sérferð eftir en óvitlaus hugmynd að reka inn nefið ef þú átt leið um. Opið daglega frá 10 til 16 og sumir hlutar safnsins lengur. Heimasíðan.

>>  Stríðsminjagarðurinn (War Memorial Garden)  –  Ágætur garður og minnismerki við Islandbridge um þá Íra sem létu lífið á vígvöllum Fyrri heimstyrjaldarinnar.

>>  Vaxmyndasafnið (National Wax Museum)  –  Þetta safn við Foster Place í Temple Bar er afar hefðbundið vaxmyndasafn og hvorki betra né verra en önnur slík. Krakkarnir hafa kannski gaman af en annars lítt spennandi. Opið 10 til 19 alla daga. Aðgangseyrir 1.600 krónur. Heimasíðan.

Vörur og verðlag

Með þeim fyrirvara að verð hækkar og lækkar daglega eftir gengi íslenskrar krónu og evru er gróflega hægt að segja að verðlag í verslunum í Dublin almennt sé 10 til 15 prósent lægra en í Reykjavík.

Verslun og viðskipti

Nóg er af ágætum verslunum í Dublin og í úthverfum er að finna sæmilega verslunarkjarna sem selja vörur á lægra verði en verslanir í miðborginni. Allar vinsælustu keðjuverslanir eru hér og nokkuð gott úrval af öðrum minna þekktum verslunum sem oftar er skemmtilegra að tölta um.

Helstu verslunargötur eru hin fræga O´Connell stræti og Grafton stræti.

Elsta verslunarmiðstöð Dublin, landsins og Evrópu allrar ef marka má Íra er í afar smekklegri byggingu í viktoríustíl. Það er Georges Street Arcade þar sem undir einu þaki má finna einar 40 verslanir af ýmsu tagi. Ekki mikið síðri er Powerscourt Centre örskammt frá Grafton Street. Þar líka rúmlega 40 verslanir og veitingastaðir. Nutgrove heitir sú þriðja sem eitthvað kveður að. Þar öllu fleiri verslanir eða um 70 talsins af ýmsu taginu. Allra stærsta miðstöðin er þó Stephens Green Shopping Centre við Stephens West götu. Aðrir verslunarkjarnar sem óhætt er að kíkja á er Arnotts við Henry Street, Dundrum Town Centre sem er stór og mikil og Jervis við Abbey Street Upper. Margir þekkja líka Clerys við O´Connell og auðvitað Westbury við Clarendon Street.

Þó hér finnist afsláttarverslanir, outlets, á stangli þarf að fara spottakorn til að komast í raunverulegan afsláttakjarna. Einn slíkur. Kildare Village, er í bænum Kildare í rúmlega klukkustundar fjarlægð frá Dublin. Þartilgerð rúta ekur á milli ef því er að skipta nokkrum sinnum á dag fram miðborginni. Miðaverð eru 1.500 krónur báðar leiðir.

Matur og mjöður

Írar hafa barasta aldrei fengið klapp á kollinn fyrir matargerð neins staðar í veröldinni og af því má draga þá ályktun að matarkyns sé þeir ekki upp á marga diska. Einbeittu sér kannski fullmikið að áfenginu hér áður fyrr. Þó er í nokkur hús að venda fyrir góðan mat og hér má sjá lista Michelin og Food & Wine yfir bestu veitingastaði borgarinnar.

♥  Le Bon Crubeen / 82 Talbot Street

♥  Gallagher Boxty House /  20-21 Temple Bar

♥  L´Ecrivain / Lower Baggott Street

♥  Chapter One  / Parnell Square

♥  Patrick Gilbaud  / Upper Merrion Street

♥  Thorntons  / St.Stephens Green

♥  L´Ecrivain  / Lower Baggott Street

♥  Chapter One  /  Parnell Square

♥  Bon Appetit  /  St.James Tern Malahide

Öðru máli gegnir um mjöð heimamanna. Guinness bjórinn er ekki heimsþekktur fyrir ekki neitt þó sá sé ekki allra. Írskt viskí er einnig í allra fremstu röð að ógleymdum líkjörunum Bailey´s og Sheraton´s og hvað þeir allir heita sem drukknir eru af áfergju um heim allan.

Enginn þarf að óttast skort á knæpum hér í Dublin. Af þeim er nóg en það sem hefur gerst síðasta áratuginn eða svo er að þessir gömlu „góðu“ pöbbar hafa verið að hverfa og í staðinn komið nýtísku staðir sem ekki leggja neina sérstaka áherslu á írska drykki né menningu.

Áfangastaður númer eitt, tvö og þrjú í Dublin hvað mat og drykk varðar er Temple Bar hverfið en staðir hér skipta tugum og margir hverjir æði fínir.

Líf og limir

Dublin er að mestu leyti æði örugg heimsóknar og fátt til að hafa áhyggjur af. Helst ber að hafa varann á sér seint um helgar í miðborginni og þá helst kringum Temple Bar. Slagsmál eiga sér stað reglulega. Þá er norðvesturhluti miðborgarinnar kannski ekki sá besti. Þar vilja fíkniefnaneytendur og seljendur halda sig þó ferðafólk verði nú líklega lítið vart við það.