S tórt spurt. Ef þú veltir þessu raunverulega fyrir þér kemstu sennilega að raun um að fátt er um svör. Ósköp fáir gera sér grein fyrir hvað raunverulega skilur að þriggja stjörnu hótel og fjögurra stjörnu hótel. Eða fjögurra og fimm stjörnu hótel ef út í það er farið.
Það helgast af því að munurinn er misjafn. Þriggja stjörnu hótel í Abu Dhabi er ekki það sama og þriggja stjörnu hótel í New Orleans. Og þriggja stjörnu hótelið í New Orleans ekki það sama og þriggja stjörnu gistingin í El Salvador.
Það er, með öðrum orðum, enginn formlegur alheimskvarði yfir hvað telst flokkast þriggja, fjögurra eða fimm stjörnu. Stjörnugjöf lesenda TripAdvisor er allt önnur en stjörnugjöf Hotels.com. Stjörnugjöf hótel- og veitingasambands Spánar allt önnur en stjörnugjöf hjá Booking.com. Þið, eins og við, hafið eflaust dvalið á frábæru þriggja stjörnu hóteli og þið, eins og við, hafið eflaust líka eytt nótt á slæmu fjögurra stjörnu hóteli. Það eru svo margir þættir sem hafa áhrif á upplifun okkar á hótelum og gististöðum og kröfur okkar misjafnar. Stjörnugjöf er því strangt til tekið marklaus.
Fræðilega á þetta að virka þannig að á fimm stjörnu herbergi á að vera með allt þetta aukalega sem þig gæti vantað. Vínbar, rúmgott baðherbergi, stórir flatskjáir, útsýni eða sérgarður, stórar svalir, lyftur og toppþjónusta allan sólarhringinn. Þriggja stjörnu herbergi á hins vegar að vera nægjanlegt með aðeins því allra helsta og jafnvel engar lyftur milli hæða né svalir eða flott útsýni. Fjögurra stjörnu pakkinn þarna mitt á milli.
Einn aðili vestanhafs vill nú reyna að koma á laggirnar alþjóðlegum staðli fyrir stjörnugjöf á hótelum og gististöðum. World Hotel Rating vill að gestir fái svipaða upplifun hvar sem gist er í veröldinni. Það gengur þó hægt fyrir sig og kannski mun alls ekki ganga því margir gististaðir myndu í því kerfi lækka um flokk þar sem kerfið er mun nákvæmara en hingað til hefur þótt nóg.
Það er því enn langt í land að við göngum að því sem vísu að þriggja, fjögurra eða fimm stjörnu hótelið standi undir stjörnugjöfinni alls staðar í heiminum. Þess vegna er stundum hreint fyrirtak að dvelja á tveggja stjörnu hótelum þar sem eigandinn er að störfum brosandi og glaður út í eitt 😉