[orbit]

Ekki allir gera sér grein fyrir að frá borginni Edmonton í Alberta-fylki í Kanada er ekki ýkja langt til eins fallegasta staðar Norður Ameríku. Staðar sem prýtt hefur ljósmyndir á mörgum íslenskum heimilum um áratugi.

Sá staður er Banff þjóðgarðurinn í kanadísku Klettafjöllunum en náttúrufegurðin hér er vægast sagt ótrúleg. Það gildir hvort sem er á sumrin eða veturna þó vissulega sé umhverfið oftast áhrifameira að sumarlagi þegar allt er í fullum blóma. Á móti kemur að óvíða eru betri skíðasvæði á heimsvísu en hér um slóðir þegar snjór þekur grundir og þrjú heimsklassa skíðahótel hér á einum og sama blettinum nánast. Öll flokkast þau í lúxusflokk og gisting og þjónusta því í dýrari kantinum.

En þetta er paradís fyrir allt útivistarfólk og ekki aðeins skíðaiðkendur. Stígar hafa verið lagðir víða um Banff og útsýnispallar allmargir fyrir þá sem erfitt eiga um gang. Klettaklifur er algengt sport hér og enginn skortur á klettum. Hér er líka Banff Gondóla sem er kláfferja upp Sulphur fjallið þaðan sem útsýni er magnað yfir stóran hluta garðsins.

Þeir ævintýragjörnustu geta svo tekið strikið út í næsta skóg og reynt að koma auga á þau fjölmörgu dýr sem hér finnast en hvorki fleiri né færri en 53 tegundir spendýra er að finna í Banff og nágrenni. Fjallageitur, elgir, dádýr og birnir þvælast hér um allt árið og ber vitaskuld að fara að öllu með gát við gönguferðir á svæðinu.

Til Banff tekur rúmlega fjórar klukkustundir að aka frá Edmonton svo vissulega er gáfulegra að bóka hótel eina nótt eða svo í Banff en að aka til baka sama dag. Það þó alveg hægt ef vilji er til og farið er eldsnemma af stað. Þá er líka hægt að eyða tíma í borginni Calgary sem er mun nær Banff en gisting kostar almennt minna þar en í Edmonton.

* Myndir Kim Schwartz / Lukemn / Stephanie Saries / Michael Muraz