M argir þarna úti segjast súrir og sárir með hlýnun jarðar. Hlýnun sem þýðir að Boston verður súpersólarstaður í mjög náinni framtíð meðan enginn fer út fyrir hússins dyr við Miðjarðar- eða Karíbahaf án þess að brenna til grunna á fimm sekúndum sléttum.

Ekki þarf meira en nettan skottúr til Alicante og heim aftur til að bæta fleiri hundruð kílóum koltvísýrings út í andrúmsloftið. Mynd ICAO

Stór angi af sívaxandi hlýnun jarðar eru flugsamgöngur. Þó það virðist ekki stoppa hæstvirtan helgrænan forsætisráðherra okkar frá flugferðalögum hægri, vinstri, er óvitlaust fyrir þau okkar sem raunverulega er ekki sama að glöggva sig á hvað flug hingað og þangað kostar. Ekki í peningum úr veskinu okkar heldur í eyðingu jarðar til framtíðar.

Á vefnum má nú finna kynstrin öll af öppum og forritum sem reikna út mengun hvers og eins sem flýgur frá einum stað til annars. Mengun flugvéla við eðlilegum kringumstæður er gríðarleg á heimsvísu en gallinn kannski sá að ekki ber öllum þessum reiknivélum saman sem gerir okkur erfitt um vik á áætla eitt né neitt.

Segjum sem svo að okkur langi í vikufrí til Alicante. Njóta sólar og ódýrs matar svona til hvíldar frá þungum vetri. Ef við kíkjum á vef umhverfissamtakanna MyClimate fæst út að hver farþegi í þotu frá Keflavík til Alicante og sömu leið til baka á almenningsfarrými bætir hvorki meira né minna en 1,2 tonni af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Koltvísýringur er af vísindamönnum talin sú gróðurhúsalofttegund sem er mest að breyta jörðinni í sánabað.

Kannski, kannski er það ofmat. Hvað ef við kíkjum á svona meira formlegri vefi á borð við vef Alþjóðaflugmálastofnunarinnar? Sú stofnun, ICAO, auðvitað fyrst og fremst að vinna að framgangi flugs svo taka verður allt með þeim fyrirvara. Þar á bæ reiknast mönnum til að Keflavík – Alicante og heim aftur bæti 480 kílóum af koltvísýringi út í andrúmsloftið.

Dálítill munur ekki satt?

Verum raunsæ og tökum miðjutöluna frá þessum tveimur viðurkenndu aðilum. Þá er hver túr okkar til Alicante og heim aftur á sardínufarrými samt að bæta 600 til 700 kílóum af baneitruðum koltvísýring lóðbeint út í loftrýmið.

Sem er dálítið mikið og segir okkur kannski að gáfulegt sé að fara í lengri ferðir þegar við álpumst erlendis. Sleppa þessum dúllulegu helgarferðum. Því þó margir flugtúrar kosti oft ekki neitt neitt er ekki víst að barnabörnin okkar hugsi mjög hlýlega til okkar árið 2060 þegar Alicante verður eyðimörk og loftslagsflóttamenn á Íslandi telja milljónir…