Einasta byggingin á þessari yndislegu eyju er viðbjóðslegt gamalt fangelsi. Skjáskot

E ndrum og sinnum gegnum tíðina hefur íslenskum yfirvöldum dottið í hug að senda misyndismenn á einhverja afskekkta eyju í ballarhafi og beðið að heilsa í þeirri von að maður drepi mann og leysi þannig vandamálið. Auga fyrir auga eins og Guð boðar. Ólíkt þeim íslensku létu yfirvöld á Kosta Ríka verða af slíku uppátæki.

Margt til verra en vera sendur til fangelsisdvalar á dúndurfallegri eyju í Kyrrahafinu. Svo fallegri eyju að áhrifavaldar nútímans myndu gefa brjóst og eista fyrir heimsókn.

Eða kannski ekki.

Niðurníddar byggingar fangelsisins.

San Lucas eyja undan strönd Kosta Ríka var staðsetning eins illræmdasta fangelsis sem sögur fara af og það í 150 ár eða svo allt frá árinu 1873 til ársins 1991 þegar því var loks lokað. Fangelsið var og er eina byggingin á eynni allri.

San Lucas, Heilagur Lúkas, var ávallt kölluð Eyja hinna einmana karla af vistmönnum sjálfum og fyrir þær sakir að hingað gat enginn komist og enginn farið og hér eingöngu karlmenn. Fjöldi þeirra fanga sem lifðu dóm sinn og komust brott er þokkalega á pari við þann fjölda gyðinga sem lifði af í Auschwitz. Á meðan vistinni stóð létu verðir sér í léttu rúmi liggja ef fangar særðu eða drápu hvorn annan, óhugnarlegar pyntingar daglegt brauð, matur og vatn fékkst bara endrum og sinnum og ýtt var undir hvers kyns kynferðisofbeldi.

Príma staður með öðrum orðum.

Ofangreint á þó aðeins við um fangelsið sjálft sem nú loks er hægt að skoða opinberlega því eyjunni var breytt í þjóðgarð fyrr á þessu ári. En eyjan sjálf er barasta náttúruparadís frá himnaríki sjálfu. Hún er fjórfalt stærri en Viðey, algjörlega skógi vaxin frá hvirfli til ilja og hér lifa merkileg skor- og spendýr sem finnast nánast hvergi annars staðar á Kosta Ríka lengur.

Algert toppstopp ef þú ert á þvælingi um Kosta Ríka einn góðan veðurdag. Taktu daginn frá 😉