Skip to main content

V ið skulum bara viðurkenna það. Stór ástæða þess að okkur flest langar að ferðast út fyrir steina þessa lands er til að komast í fjölbreyttara úrval verslana sem jafnframt bjóða vörur á töluvert lægra og eðlilegra verði en hér er raunin.

Verðlag í verslunum Boston er almennt 16 prósent lægra en hér gerist.

Verðlag í verslunum Boston er almennt 16 prósent lægra en hér gerist.

Samtök verslunarinnar mega mótmæla til endaloka heimsins en staðreyndin er samt sem áður sú að þær eru vandfundnar verslanir erlendis þar sem ekki má gera betri kaup en hér heima. Gildir þar einu hvort litið er vestur um haf eða austur.

Boston hefur mörg undanfarin ár tekið við af evrópskum borgum eins og Glasgow og Dublin sem verslunarborg númer eitt, tvö og þrjú meðal Íslendinga. Það breyttist ekki þrátt fyrir gríðarlegt fall krónu gagnvart dollar síðla árs 2008. Fall sem reyndist það mikið að enn er hver dollari 50 til 60 krónum hærri en hann var þegar best lét á uppgangstíma á klakanum.

Þrátt fyrir risafall krónu er mjög eftirsóknarvert að versla í Boston sem ætti að segja ýmislegt um ofurálagningu kaupmanna á klakanum. Þess utan er stór hópur fólks sem ekki verslar mikið per se í verslunum innan borgarmarka heldur heldur áleiðis í outlet-miðstöðvar sem finnast nokkrar hér í kring. Þar má fá vörur á allt að helmingi lægra verði en í borgunum eins og flestir vita en kannski ekki allra nýjustu vörurnar.

Almennt talað er bandaríski dollarinn í töluverðum hæðum þegar þetta er skrifað sem þýðir að við fáum minna en ella fyrir krónurnar okkar. Það gæti útskýrt að heilt yfir er ekki nema 28 prósent verðmunur á vörum í Boston og Reykjavík.

Almenn dæmi segja þó aðeins hálfa sögu. Sem dæmi um verð í Boston má nefna að vinsælar Levi´s gallabuxur kosta þetta fimm til sex þúsund krónur en eru yfir 15 þúsund krónur hér heima. Það reiknast sem 60% verðmunur. Sama gildir um vinsæla týpu af Nike hlaupaskóm. Slíkir fást í Boston kringum níu þúsund en hér teljast menn hafa gert kjarakaup ef slíkir skór fást undir 18 þúsundum.

Máltíð á góðum veitingastað í Boston kostar 28% minna en sams konar máltíð á betri veitingastað í Reykjavík. Á móti kemur þó að skyndibitinn kostar svipað eða þetta 1.200 til 1.500 krónur.. Algengt verð á stórum bjór á veitingastað/bar í Boston er 700 til 800 krónur eða lítið eitt lægra en á happy hour hér heima á ódýrustu búllunum.

Stök ferð með strætisvagni innan borgar í Boston kostar 300 krónur en 5230 krónur í Reykjavík. Startgjald leigubifreiða er tæplega 40% lægra í Boston, 360 krónur á móti 800 krónum hér á landi. Bensínlítrinn kostar í Boston 95 krónur en vel ríflega 300 krónur á Fróni.

Það verður seint talið til leiðinda að heimsækja Boston þó það hangi auðvitað saman við félagsskapinn. Góðir vinir gera leiðinlegasta stað jarðar að skemmtilegum og öfugt vitaskuld. Fyrir þá sem ætla til Boston í fyrsta skipti er óvitlaust að kíkja á leiðarvísi Fararheill um borgina en þar má finna ýmsar fínar ábendingar, myndband, upplýsingar um veðurfar, verslunarmiðstöðvar og afsláttarverslanir auk allra bestu hótelbókunarvélar heims. Allt um það hér.

* Heimildir: Sperling, Expats og Numbeo í janúar 2023.