
Slíkar teikningar má sjá víða í velflestum þorpum landsins. Mynd Nagjaran Kundakuru
Þ að er margt merkilegt sem mætir sjónum þeirra ferðamanna sem heimsækja hið fremur lokaða konungsríki Bútan. Náttúrufegurð á heimsmælikvarða, byggingar margar hrein listaverk, fólkið lífsglatt þrátt fyrir erfitt líf og ekki má heldur gleyma typpamyndunum.
Já, við sögðum typpamyndunum. Teikningar af þeim ágæta líkamshluta er að finna á áberandi stöðum á fjölda bygginga vítt og breitt um þetta litla land og þar engin fjöður dregin yfir neitt. Flestar sýna þær fulla reisn og margar sýna þær sáðlát. Eins og þessar áberandi myndir séu ekki nóg þá finnast líka typpi í ýmsum gerðum út í næstu búð ef út í það er farið og víða er þetta tákn karlmannsins notað sem gluggaskreyting í hinum og þessum verslunum.
Einhver gæti fallið í þá gryfju að halda að hérlendir séu typpa- eða kynlífsóðir en það er öðru nær þegar betur er að gáð. Heimamenn trúa því, og hafa lengi gert, að typpi í fullri reisn haldi frá öllum illum öndum og komi í veg fyrir slæmt umtal.
Sú trú á svo aftur rætur að rekja til eins leiðtoga landsins á miðöldum sem fékk snemma viðurnefnið hinn galni vitringur að því er fram kemur á Wikipedia. Sá hafði víst sér til dundurs að teikna typpamyndir í tíma og ótíma og sá siður hans náði slíkri útbreiðslu að þess sér víða merki í dag.

Mynd shankar s.

Mynd Kandukuru Nagarjun