S vo merkilegt sem það er þá virðist það ekki duga mörgum sem til Parísar koma að berja augum heimsins bestu söfn, borða á einum af þúsund fyrirtaks veitingastöðum eða njóta þess sérstaka andrúmslofts sem aðeins finnst í borginni. Nei, ekki aldeilis. Fjölmargir finna hjá sér brýna þörf að drífa sig í verslanir.
Kannski líka ástæða til enda París mekka tísku og lúxusvarnings af öllu taginu og vissulega af nógu að taka í þeim efnum. En þó aðeins eigi fólk feita seðla í vasa eða með stóra heimild á einu eða fleiri kortum. Því þótt París per se sé ekki frámunalega dýr heimsóknar fyrir meðaljón- og gunnu kostar morð fjár að versla þar merkjavörur.
Þá er best að byrja í hinni fornfrægu breiðgötu Champs Elysée því þar má finna lúxusverslanir á borð við Louis Vuitton, Versace og Cartier svo aðeins þrjár séu nefndar. Þar líka er töluverður fjöldi antíkverslana og listaverkagallerí eru hér einnig nokkur og undarlega mörg bílaumboð hafa plantað sér hér líka. Ekki þó Huyndai heldur meira í ætt við Bentley.
Til að komast í enn fleiri tískuverslanir sem bragð er að þarf ekki langt að fara. Gengið niður Champs Elysée að Avenue Montaigne og þar finnst fjöldinn allur af hátískuverslunum. Hér eru Dior, Nina Ricci, Gucci, Armani og Chanel svo eitthvað sé nefnt í viðbót við fjölda annarra freistandi verslana. Hér finnast líka nokkur af dýrustu hótelum Parísar.
Enginn þarf að þreytast mikið á labbi í næstu götur með safaríkum verslunum í dýrari kantinum. Ein helsta gata Parísar um alla tíð hefur verið verslunargatan Rue du Faubourg Saint-Honoré en hún liggur þvert á fyrrnefnda Avenue Montaigne. Þetta er reyndar fínt stopp þeirra sem heimsækja París fyrsta sinni því hér er líka forsetahöllin en hér finnast líka lúxusverslanir á borð við Hermès.
Sé fokdýr fatnaður ekki nógu spennandi þarf ekki að leita langt til að komast í dýrustu skartgripaverslanir borgarinnar og líklegast heimsins líka. Kringum Place Vendôme og sérstaklega í Rue de la Paix er að finna öll helstu merkin í glysi og glingri. Glysgjarnir gárungar segja reyndar að gjöf keypt hér muni kaupa þér vin fyrir lífsstíð en spurning reyndar hvort sá vinur er ekki fulldýr á fóðrum fyrir fölbleika Frónbúa með sínar 400 þúsund krónur í meðallaun.
En enginn verslar mikið meðan malli mallar og múkkar. Örskammt frá Place Vendôme er Madeleine torgið, Place de la Madeleine, þar sem minnst tvær dýrustu sælkeraverslanir heimsins eru staðsettar. Sé það matarkyns og kosti formúgu þá fæst það annaðhvort í Hediard eða Fauchon eða báðum.
Fyrir suma er París bara yfirborðskennt drasl þangað til fólk kemur í Saint-Germain hverfið eða Saint Germain des Pres eins og það heitir fullu nafni. Hér er stemmarinn sem borgin varð upprunalega fræg fyrir og fátt ljúfara í þessum heimi en tölta með elskunni eftir þröngum götum þar sem allar heimsins útgáfur af tónlist óma frá velflestum knæpum og kaffihúsum. Verslunarglaðir geta fundið ýmsa fína muni í Rue du Cherche-Midi eða Rue Bonaparte. Sérstaklega á það við um dýrari antíkmuni, eldri skartgripi og síðast en ekki síst ýmis listaverk sem kosta sitt.
Þeir lötu, og margir eru latir eftir að hafa notið Parísar í botn og það er ekkert til að skammast sín fyrir, ættu að halda þráðbeint í magasínverslanir borgarinnar. Þær eru ekki jafn dýrar og lúxusverslanirnar en ekki munar þó miklu oft því þær selja margar sömu merki og fást í lúxuskeðjuverslununum. Boulevard Haussmann er staðurinn til að komast í minnst tvær stórar magasínverslanir Galeries Lafayette og Au Printemps en þar er fjöldi annarra verslana.
Ein góð, og dýr, magasínverslun til viðbótar finnst við Sèvres Babylone. Þar er Le Bon Marché sem er eins nálægt því fyrir verslunarmiðstöð að komast í lúxusflokk.
Vitaskuld er París alvöru heimsborg og sem slík er að finna fínustu verslunargötur víða í borginni. Þeir sem gera sér far um að rölta bara um og skoða rekast alltaf á skemmtilegar verslanir.
View Hér verslar þú í París ef þú átt peninga in a larger map