Skip to main content

V art hefur farið framhjá golfunnendum síðustu misserin að tveir pólskir golfáfangastaðir eru komnir á kortið. Annars vegar Sierra Golf Club og hins vegar Sand Valley Golf Club. Við prófuðum báða nýlega.

Falleg mynd af vellinum á Sand Valley. En stenst myndin raunveruleikann? Mynd SandValley

Við byrjum á Sand Valley en sá völlur er í eigu finnskra aðila sem hafa gert mikið út á íslenska kylfinga síðustu árin. Sá völlur finnst í rúmlega klukkustund til austurs frá Gdansk en þangað er flogið reglulega héðan.

Eðli máls samkvæmt þegar ríkir Finnar kaupa land í fátæku Póllandi til að græja golfvöll er ekki hægt að kvarta mikið á Sand Valley. Völlurinn komst strax í hóp þeirra allra bestu í Póllandi en það segir svo sem ekki mikið því fjöldi golfvalla í landinu er á pari við fylgi Miðflokksins. Sem sagt lítið úrval.

Klúbbhús Sand Valley er fyrirtak með fínan bar, ágætan veitingastað og yfirleitt bros á vörum allra starfsmanna. Fínn staður til að njóta sólar og kósíheita eftir hring eða fyrir en þó aðeins ef fólk þolir ríka Svía því af þeim er nóg hér. Þar skammt frá er æfingasvæði vallarins sem er allsæmilegt og enginn sem fer völlinn á 130 höggum getur kennt um lélegu æfingasvæði.

Villurnar á Sand Valley eru fyrirtak fyrir fjölskyldur eða hópa. Skjáskot Sand Valley

Það er líka boðið upp á fína gistingu á staðnum fyrir fjölskyldur eða hópa í tíu villum sem finnast við völlinn. Frábær gisting í alla staði og öll húsin með gistipláss fyrir 4-8 einstaklinga og öll hugsanleg þægindi.

Mínusinn reyndar sá að völlurinn, og villurnar, eru í töluverðri fjarlægð frá næstu borgum og bæjum. Sem merkir að þau ykkar sem vilja upplifa eitthvað meira en golf og heitan pott að leik loknum þurfa að hafa bifreið til umráða eða punga duglega í leigara.

Þá er það plús eða mínus, eftir því hvernig litið er á málið, að hér eru Svíar algengari en mý á mykjuskán og ef miða skal við okkar reynslu skiptir djamm og djúserí þá meira máli en golfið. Þetta eru sem sagt djammferðir fyrir Svíana og golfið þokkalegt aukaatriði.

Völlurinn sjálfur

Golf World valdi Sand Valley sem besta völl Póllands árið 2019. En þar líka á ferðinni semí-atvinnumenn í faginu. Fyrir okkur meðalplebbanna er Sand Valley góður en jafnframt nokkuð erfiður. Brautir margar langar og vel skornar af trjám, illgresi, tjörnum eða beinlínis sandi og almennt afar lítið rúm fyrir vafasöm högg.

Sandur um allt, illgresi víða og brautir langar. Meðalgolfarinn setur engin met á þessum velli. Skjáskot Sand Valley

Erfiðleikastuðullinn gerir völlinn ekkert endilega leiðinlegan per se en meðalgúbbinn má framleiða sitt besta golf til að skila ekki inn prumpskori að leik loknum. Sem er kannski ástæða þess að Svíarnir drekka meira áfengi á vellinum en spila golf. Þeir vita hvað klukkan slær.

Niðurstaðan

Nú þegar golfhringur víðast hvar erlendis kostar manninn fimmtán þúsund krónur að lágmarki er Sand Valley frábær kostur til að spila og njóta fyrir töluvert minna fé en ella. Flogið er reglulega til Gdansk í grenndinni og flugið yfirleitt hræódýrt ef bókað er með fyrirvara. Frá Gdansk tekur rúma klukkustund að komast alla leið.

Völlurinn góður en ekki frábær og tiltölulega erfiður meðalkylfingum en aðstaða öll er 100% góð. Þjónusta almennt frábær. En það er töluvert langt í pólska menningu svona ef fólk fær nóg hvort af öðru í heita pottinum.

Einkunn: 6 af 10 mögulegum.