Borgin Barcelona er ein af þeim fegurri á Spáni og þótt mun víðar væri leitað. En stundum er jú erfitt að sjá skóginn fyrir trjánum og sama gildir um katalónsku höfuðborgina. Langbesti staðurinn til að taka borgina inn í öllu sínu veldi er af toppi Tibidabo fjalls og ferðin þangað með bláu sporvögnunum er skemmtilegt ævintýri.

Tramvia Blau heita hinir bláu sporvagnar Barcelona og finnast aðeins við rætur Tibidabo fjalls í norðvesturhluta borgarinnar. Mynd Mike
Tramvia Blau heita hinir bláu sporvagnar Barcelona og finnast aðeins við rætur Tibidabo fjalls í norðvesturhluta borgarinnar. Mynd Mike

Ferð upp Tibidabo er jafnan ekki á dagskrá þeirra fjölmörgu sem aðeins dveljast í Barcelona skamman tíma en ætti sannarlega að vera það.

Ekki aðeins er sporvagnaferðin upp hálft fjallið í elstu sporvögnum borgarinnar nokkuð skemmtilegt ævintýri heldur er litríkur skemmtigarður á staðnum og hreint makalaust frábært útsýni af toppnum yfir borgina og langt út á sjó. Má glögglega sjá legu borgarinnar og átta sig auðveldlega á hinum ýmsu hverfum sem er öllu erfiðara á göngu í borginni sjálfri.

Ekki aðeins er ljúft að sitja á rassinum stundarkorn í gömlum sporvagni, þeir elstu eru frá árinu 1901, heldur og þræða vagnarnir stíg upp fjallið gegnum einhver allra ríkustu hverfi Barcelona. Það má því líka fá ágæta yfirsýn hvernig hinir ríku og frægu hér í borg búa og lifa.

Kannski til marks um sérlundarhátt Katalóna, og þeir eru það, þá duga sporvagnarnir þó ekki til að komast alla leiðina upp Tibidabo. Þeir bláu fara rétt hálfa leið áður en þeir snúa við aftur. Þaðan, Plaça Dr Andreu, er togvagn sem flytur farþega alla leið upp á topp. Við Plaça Dr Andreu eru ágætir barir og veitingastaðir og jafnvel héðan er útsýni ágætt þó vænlegast sé að fara alla leið upp.

Bláu sporvagnarnir fara um daglega á 15 til 30 mínútna fresti frá apríl ár hvert og fram í október en sjaldnar yfir háveturinn. Úr miðborginni er vænlegast að taka jarðlest L7 frá Plaça de Catalunya að Avenida Tibidabo. Þar fyrir utan er ein stoppistöð Tramvia Blau. Túrinn upp tekur um átta mínútur alls og stakur miði kostar um 700 krónur. Ágætt er að hafa tímann fyrir sér yfir annatíma því túrinn er vinsæll.

Vertu svo viss um að nota allra bestu hótelleitarvélina til að finna allra bestu hótelin á allra besta verðinu í Barcelona.