E kki líður einn einasti dagur án þess að dúndrað sé á okkur alls kyns gylliboðum og gyllinæðarboðum, hvort sem er frá vinum, ættingjum, fjölmiðlum eða fésbók um hvernig við eigum að haga okkur, borða og hreyfa til að njóta sem heilsusamlegs lífernis og lifa langt um aldur fram.

Hættu þessu púli í ræktinni og sulli í heilsudrykkjum. Útför er flestra meina bót. Mynd Tomas-F

Hættu þessu púli í ræktinni og sulli í heilsudrykkjum. Útför er flestra meina bót. Mynd Tomas-F

Borða þetta, drekka hitt, jóga, skokk, lyftingar, crossfit og hvað allt þetta heitir sem á að gera okkur bæði flottari, tónaðri og hamingjusamari til hundrað ára aldurs.

Kannski eru matarfræðingarnir sama fólkið og vann í bönkum landsins fyrir hrun og kom af fjöllum þegar allt fór fjandans til. Það er ljóst að þeir eru misskilja eitthvað herfilega því þjóðin fitnar og fitnar og þó nóg sé af töfralausnum frá hinum og þessum komumst við ekki enn í hálfkvisti við allar þær töfralausnir sem fyrirfinnast í Bandaríkjunum þar sem fólk líka fitnar bara og fitnar.

En hvað ef það allra heilsusamlegasta sem þú gerir væri einfaldlega að fara burt í frí?

Allnokkrar rannsóknir bæði vestur í Bandaríkjunum og frá Evrópu líka sýna svart á hvítu að fátt er hollara en komast burt frá hefðbundnu lífi nokkrar vikur á ári hverju. Það eitt og sér, jafnvel að meðteknu ýmsu áreiti sem frí erlendis geta haft í för með sér, hefur stórvægileg jákvæð áhrif á heilsuna. Nánar tiltekið sýna þær að þeir sem sleppa fríum deyja fyrr en þeir sem taka sín frí og það sem oftast.

Ein vísindaleg könnun State University of New York sýndi fram á að karlmenn sem fóru ekki í frí einu sinni á ári voru 32 prósent líklegri en hinir til að fá hjartaáfall. Sama könnun sýndi að karlmenn sem ekki fara í frí minnst einu sinni á fimm ára fresti eru í langmestri hættu allra karlmanna til að fá fyrir hjartað og lifa það ekki af.

Önnur vísindaleg könnun sem tók aðeins til kvenna sýndi fram á sama hlut hjá þeim konum sem aðeins fóru í frí á nokkurra ára fresta miðað við kvenfólk sem fór árlega í frí.

Þriðja könnunin sýndi með óyggjandi hætti að fólk sem tekur frí reglulega er mun sprækara í vinnunni en hinir sem vinna sér til óbóta. Þeir sem komu ferskir úr fríi annars lagið skiluðu mun meiri framleiðni en hinir sem gerðu það ekki eða fóru aðeins í stutt helgarfrí.

Enn ein könnunin sem Wisconsin Medical Journal gerði meðal kvenna sýndi greinilegan mun á konum sem tóku oft frí og hinum sem gerðu það ekki. Þær fyrrnefndu voru frískari andlega og líkamlega meðan þær síðarnefndu glímdu mun oftar við alvarlegt þunglyndi og sváfu almennt illa.

Kannski er því ráð að sleppa því að drekka rándýrt eðaljurtaseyði frá Beljudal, eyða heilum vetri í crossfit eða misfitt eða hvað þetta allt heitir og einfaldlega henda sér út í heim eins oft og buddan leyfir. Aukabónusinn er svo að það verða líka töluvert betri minningar í bankanum á dánarbeði en úr sveittum æfingasölum.