A llir sem eitthvað hafa kynnt sér Róm vita að hún er formlega titluð borg hinna sjö hæða og vísar til þess að hún er byggð kringum, og á síðari tímum ofan á sjö hæðum. Einni hæð sérstaklega mælir Fararheill hundrað prósent með að heimsækja.

Þó Aventino hæð sé íbúðahverfi að mestu er þar að finna lítið torg og við það torg er Skráargatið þaðan sem hægt er að sjá Péturskirkju í fjarska gegnum þar til klippt limgerði. Mynd cooneyie
Það eru kannski ekki svo margir sem gera sér far um að klífa hæðir Rómar. Nóg er jú að vitna í borginni svo þramm upp brattar hæðir bætist ekki ofan á allt saman. Enda er það svo að ferðamálayfirvöld í Róm eru ekki að setja hæðir sínar hátt á lista yfir staði til að skoða.
Að okkar mati er það þó lágmark að láta sig hafa að heimsækja þó ekki væri nema eina þeirra. Þar mælum við sannarlega með Aventino hæð eða colle Aventino á frummálinu. Sú er í raun tvær hæðir strangt til tekið en undir einu og sama nafni. Þær standa syðst hæðanna sjö í borginni.

Upp komast lygar um síðir. Sérstaklega hér…
Fjölmargar ágætar ástæður eru fyrir að láta sig hafa heimsókn hingað. Í fyrsta lagi er þetta einn besti staður til að fá yfirsýn yfir stóran hluta Rómar. Aðeins Il Pincio í Villa Borghese býður betri útsýn en munurinn sá að þar er allt kjaftfull af ferðamönnum sem afskaplega lítið fer fyrir hér. Í öðru lagi er hér kringum íbúðarhús og villur vellauðugra heimamanna afskaplega yndislegur lítill almenningsgarður, Parco Savelli, þar sem eingöngu voru heimamenn á vappi þegar við heimsóttum síðast í október 2014. Í þriðja lagi er hér að finna hið fræga Skráargat við torg hinna maltnesku riddara, Piazza di Cavelieri di Malta. Gegnum það gefur að líta Péturskirkjuna í fjarska séð gegnum lítið skráargat gegnum vel klippt limgerði. Vægast sagt sérstakt en mörgum þykir þetta alveg frábært.
Fleira er hér sem gefur ímyndaraflinu lausan tauminn. Til dæmis Sannleiksmunnurinn, Bocca dellá Verita, sem er forn ímynd guðs hamrað í marmaraplötu. Með því að stinga hendi í munn goðsins má ganga úr skugga um hvort viðkomandi segir sannleikann eða lýgur. Og vei þeim er lýgur því sá mun missa hendina samkvæmt goðsögninni.
Enn hefur ekkert verið minnst á stærri mannvirki á Aventino hæð en þar stendur hæst dómkirkja heilags Sabina, Santa Sabina All´Aventino, en þessi kirkja er talin vera elsta kristskirkja í Róm. Byggingin merkileg og sannarlega skoðunar verð. Skammt frá stendur líka hof Portunusar, Fortuna Virilis, ein best varðveitta bygging borgarinnar sem reist var á tíma Rómverska heimsveldisins. Hér er líka hof sigurvegarans, Tempio di Ercole Vincitore, til heiðurs sigurvegurum sem vitaskuld átti við um Rómaverja sjálfa þegar það var reist.
Að síðustu er hér líka að sjá merkilegar rústir eins stærsta og vinsælasta baðhúss Rómar á sínum tíma. Baðhús Caracalla, Terme di Caracalla, var ekkert slor heldur gátu hér baðað sig allt að 1600 manns í einu. Við rústirnar fara reglulega fram viðburðir undir beru lofti á sumrin.
Að lokum er kannski athyglisvert fyrir þá sem gaman þykir að sögunni að það var hér á toppi Aventino sem Símon nokkur Bolívar er sagður hafa kastað sér á hnén og öskrandi lofað sjálfum sér og guðunum að frelsa Suður Ameríku úr klóm spænska heimsveldsisins fyrir nokkrum öldum síðan. Það gekk eftir síðar meir að mestu leyti.