Skip to main content

H eilt yfir eru velflest hótel og gististaðir að bjóða upp á sams konar vöru og þó sums staðar séu rúmin mýkri og annars staðar þjónustan betri breytir það ekki því að fæst okkar muna lengi eftir dvöl á hótelum. Þau verða flest nafnlaus og gleymd með tímanum.

Rúm úr gömlum Mercedes í boði og sé það ekki rétta tegundin er Volkswagen eða Cadillac einnig í boði. Mynd V8

Rúm úr gömlum Mercedes í boði og sé það ekki rétta tegundin er Volkswagen eða Cadillac einnig í boði. Mynd V8

Hótelstjórnendur og eigendur eru mætavel meðvitaðir um ópersónuleika hótela um heim allan og búið að reyna mikið síðustu ár að finna leiðir til að freista ferðalanga umfram önnur hótel. Verð skiptir marga máli, þægindi aðalatriðið hjá öðrum og staðsetning númer eitt, tvö og þrjú hjá enn öðrum.

Svo eru það þeir sem eru gagnteknir af einhverju áhugamáli. Knattspyrnuáhugamenn, frímerkjasafnarar, saumaklúbbar og aðrir slíkir sem kannski væri hægt að heilla sérstaklega.

Það er ástæða þess að hótel eitt í bænum Boblingen, skammt frá Stuttgart í Þýskalandi, hefur náð nokkrum vinsældum og það aðallega meðal bílaáhugafólks. Hótelið heitir V8 og ætti að segja allt sem þarf. Þar eru herbergi innréttuð í stíl við verkstæði, geymsluskúra og annað slíkt umhverfi sem bíladellufólk gæti vel liðið. Rúmin eru eftirlíkingar af frægum bílategundum eins og Mercedes, Volkswagen eða Cadillac og skreytt í hólf og gólf með tilheyrandi myndum og rúsínan í pylsuendanum er svo ágætt safn fornbíla á fyrstu hæðinni.

Hugmyndin svo vinsæl að opnað var V8 númer tvö í haust sem leið, aðeins einu ári eftir að hið upprunalega hótel hóf starfsemi. Bæði hótelin fjögurra stjörnu og sirkabát 100 sinnum skemmtilegri en hefðbundin hótel svona ef þig vantar þak yfir höfuð í grennd við Stuttgart á næstunni. Ekki dapurt heldur að gistikostnaður almennt virðist vel undir 20 þúsund krónur per nótt. Bæði hótel finnurðu að sjálfsögðu á áttföldum hótelbókunarmeistara hér að neðan 😉