F rægasta hátíðin í Mexíkó ár hvert er vafalítið Dagur hinna dauðu, Día de los Muertos, en þá minnast hinir lifandi þeirra dauðu. Ekki með sorg og sút, grát eða gnístran tanna heldur með hátíðarhöldum og gleði.

Löng hefð er fyrir Degi hinna dauðu í Mexíkó og þar er æði skemmtilegt að vera á meðan. Mynd E.Robers

Löng hefð er fyrir Degi hinna dauðu í Mexíkó og þar er æði skemmtilegt að vera á meðan. Mynd E.Robers

 

Þó víða megi finna einhvers konar hátíð vegna þessa í landinu öllu er héraðið Oaxaca númer eitt, tvö og þrjú í þessu tilfelli en þar hafa menn minnst hinna dauðu meira eða minna með þessum sama hætti í hundruðir ára og mun lengur en önnur héruð Mexíkó.

Tveir dagar, ekki einn

Í raun er um tvo daga að ræða. Annars vegar Dagur litlu englanna, El día de los Angelitos, þar sem sérstaklega er minnst barna sem látist hafa og hins vegar Dags hinna dauðu, El día de los Muertos, þar sem forfeðra og annarra sem eldri eru og horfnir eru yfir móðuna miklu er minnst með skemmtun, ljósum og skreytingum um allt. Minna herlegheitin stundum á bíómyndir eftir Tim Burton.

Um afar merkilega hátíð er að ræða þó vissulega finnist stöku gestum heimamenn gera lítið úr hinum dauðu með gleði sinni en skemmtun og drykkja fram eftir nóttu er stór hluti af öllu saman. Þetta er enginn sorgardagur fyrir Mexíkóa heldur þvert á móti.

Sem fyrr segir má víða upplifa dagana og stemmninguna en Oaxaca í um sex klukkustunda fjarlægð frá Mexíkóborg er mekka Dags hinna dauðu. Hátíðin hefst árlega 31. október og stendur linnulítið fram til 2. nóvember. 

Gott að hafa í huga að gisting í Oaxaca og á öðrum vinsælum svæðum selst gjarnan alfarið upp meðan á hátíðinni stendur. Ráðlegt að bóka með mjög góðum fyrirvara.

Ein firnagóð kvikmynd gerir Degi hinna dauðu allgóð skil ef fólk hefur áhuga. Það er hin klassíska Under the Volcano, Undir eldfjallinu, með Albert Finney

DIA DE LOS MUERTOS – EN OAXACA from reygun on Vimeo.