F yrsti hvíti maðurinn sem uppgötvaði kirkjurnar í bænum Lalibela í Eþíópíu árið 1540 vissi sem var að enginn lifandi maður í Evrópu myndi trúa því að í þessum rykuga bæ í myrkraálfunni Afríku væru menn svo trúaðir að þeir hefðu hoggið sér, ekki eina, ekki tvær, heldur ellefu kirkjur til að dásama himnaföðurinn.

Ekki bara hoggnar úr hörðum steini heldur lengst niður í jörðu. Kirkjurnar í Lalibela eru verkfræðilegt undur. Mynd PJBayens
En það gerðu þeir sannarlega að áeggjan Lalibela konungs ríkisins á þeim tíma. Sá hafði sem unglingur komið til Jerúsalem og í kjölfarið svarið þess eið að gera heimabæ sinn að hinni nýju Jerúsalem.
Hann beið ekki boðanna þegar heim var komið. Hann virkjaða fátæka landa sína í hvelli og lét byggja ELLEFU KIRKJUR á allra erfiðasta máta sem sögur fara af; niður á við.
Þvílíkt stórvirki þykir þetta að talað hefur verið um kirkjurnar sem áttunda undur veraldar. en engum dylst að mikið þrekvirki þurfti til að smíða ellefu kirkjur úr klettum á þurru og brennheitu hálendi Eþíópíu með allra einföldustu verkfærum sem ekki fengju háa einkunn á okkar tímum. Ekki aðeins var kirkjusmíðin sjálf ábyggilega mikill þrældómur heldur þurfti líka að grafa djúpar og breiðar holur því hvert og eitt þessara guðshúsa er neðanjarðar. Kirkjurnar allar eru hoggnar niður í jörðina því engir eru klettarnir eða fjöllin hér um slóðir.

Aldeilis magnað fyrirbæri.
Því miður fyrir Lalibela konung þurfti nokkrar aldir til áður en vestrænir menn uppgötvuðu dýrðina og enn þann dag í dag njóta kirkjurnar takmarkaðrar hylli enda Eþíópía lítið á dagskrá ferðaskrifstofa almennt.
Í Eþíópíu eru kirkjurnar þó landsfrægar sem eðlilegt er og þær hafa komist á lista þeirra sem vilja uppfæra listann yfir helstu undur veraldar en kosning um slíkt hefur farið fram og stendur til að endurtaka þann leik áður en langt um líður.