Skip to main content

V ið vorum búin að stúdera þetta í þaula. Hvernig er einfaldast og ljúfast að skoða hina stórkostlegu Amalfi strönd á Ítalíu. Við urðum sammála um að flakk á skellinöðru yrði sérdeilis góð hugmynd en á daginn kom að það fannst ekki öllum.

Amalfi býður upp á fleira stórkostlegt en margur gerir sér grein fyrir. Mynd Alessandro Tortora

Amalfi býður upp á fleira stórkostlegt en margur gerir sér grein fyrir. Mynd Alessandro Tortora

Amalfi er efalítið einn af fallegustu stöðunum í fallegu landi og það geta þeir vottað sem þangað hafa komið.

Þorp eftir þorp í snarbröttum hlíðum með frábærri sjávarsýn yfir Napólíflóa og Týrenahafið heilla hvern lifandi mann og ekki er skortur á öðru að sjá hér og njóta.

En hvernig á að njóta slíks sem best?

Rútuferðir eru ágætar á stundum þegar langt er milli áhugaverðra staða. Mínusinn sá að rúta er óttalega gerilsneydd leið að okkar mati. Ferðaáætlun niðurnegld og aðeins stoppað á allra helstu stöðum. Sem er galli þegar falleg sýn blasir við þeim er ferðast um Sorrento skagann á um það bil mínútu fresti.

Bílaleigubíll er hugmynd líka en þá þarf að vesenast að finna stæði hvert sinn sem eitthvað fallegt ber fyrir augu og hér getur það tekið á þolinmæði þolinmóðasta manns. Í þokkabót eru umferðartafir þokkalega algengar hér og hver vill eyða fríinu fastur í umferðarteppu. Svo ekkert sé minnst á umferðarslys og Ítalir aldrei fengið verðlaun fyrir góða umferðarmenningu.

Lausnin, að okkar mati, var að leigja skellinöðrur. Ítalskur félagi sem var með í för tók undir að það væri fín hugmynd enda snérist ferðaáætlunin um að fara hægt yfir og njóta en ekki bruna á helstu staði og láta gott heita. Á skellinöðru væri líka hægt að komast hjá umferðartöfum ef einhverjar væru og leggja nánast alls staðar vandræðalaust. Síðast en ekki síst kostar dagsleiga á slíku farartæki ekki nema 25 evrur svona almennt plús trygging.

Í Ravello gengum við beint inn á næstu hjólaleigu og þær eru nokkrar og óskuðum eftir fjórum skellinöðrum. Þetta eru í raun vespur með örlítið meiri krafti en gengur og gerist og þær eru leyfilegar á flestum vegum ef frá eru taldir þjóðvegir. En við höfum líka reynslu af því að lögregla víða er ekki að skipta sér af skellinöðrum á þjóðvegum heldur svo lengi sem ekki er ekið á miðjum vegi og umferð teppt.

En nú brá svo við að eigandinn, og að því er virtist eini starfsmaður leigunnar, var ekkert áfjáður að leigja nokkurn skapaðan hlut. Eins og kafli í leikriti eftir Dario Fo eyddum við, með dyggri hjálp félaga okkar Alessandro, 40 mínútum eða svo að sannfæra leigusalann að við ætluðum að leigja hjól hvort sem honum líkaði betur eða verr. Allt var þetta í góðu samt þó Ítölum sumum standi mjög hátt rómur þegar blóðið fer á hreyfingu.

Leigusalinn var ekki alveg tilbúinn að leigja útlendingum sökum þess að reynsla hans af því var slæm. Útlendingar almennt gerðu sér ekki grein fyrir hversu þung umferðin væri víðast hvar á skaganum, vegir víða þröngir, beygjur krappar og ítalskir ökumenn þekktir fyrir litla þolinmæði og blóðhita. Síðast en ekki síst vissi hann upp á hár slysatölu erlendra ferðamanna á þessum slóðum og hversu oft skellinöðrur hans skiluðu sér beyglaðar eða ónýtar.

Þó lítt hafi verið gaman að þjarka á þeim tíma er þetta eftir á að hyggja bráðskemmtilegt atvik og raunar afar virðingarvert af manni sem hefur lifibrauð af því að leigja skellinöðrur að bera hag erlendra ferðamanna fyrir brjósti.

Hann reyndist líka sannspár að því leyti til að það var ívið flóknara að þvælast um Sorrento-skaga á nöðrunum. Umferð er sannarlega mjög þung og fáir sýndu minnsta tillit til skellinöðrufólksins. Túrinn sóttist því seint en allt gekk þó upp vandræðalaust. Við skiluðum hjólunum tveimur sólarhringum síðar og leigusalinn lofaði guð.

Niðurstaðan er að það tókst sannarlega að túra um skagann nokkuð vel. Við stoppuðum þar sem við vildum vandræðalaust og enginn tími fór í að leita að stæðum. En það skal líka viðurkennast að þetta er minna sniðugt en við hugðum. Tillitsleysi á vegum var algjört, flaut og öskur jafnvel regla fremur en undantekning og það getur gert skellinöðrufólki bylt við. Stáltaugar nauðsyn og enginn skyldi prófa nema kaupa allar þær tryggingar sem mögulega eru í boði.

Óhrædd við að nota nífaldan heimsmeistara í hótelbókunum samkvæmt World Travel Awards hér að neðan. Það er eina tekjuleið okkur hér 😉