Íslendingar margir sækja Boston stíft heim þó kannski megi segja að fleiri gera það til að versla fremur en að Boston per se sé margra heimsókna virði. En hvert fara íbúar Boston þegar þeir fá nóg af amstri og sumarhitum í borginni? Aðeins einn staður kemur til greina: Cape Cod.

Í 90 mínútna fjarlægð frá Boston með hraðferju er hinn æði sérstaki og yndislegi bær Provincetown á odda Cape Cod

Í 90 mínútna fjarlægð frá Boston með hraðferju er hinn æði sérstaki og yndislegi bær Provincetown á odda Cape Cod

Cape Cod, Þorskhöfði á hinu ylhýra, sem einnig tilheyrir Massachusetts fylki eins og Boston er útivistarstaður par exellens en jafnframt er Cape Cod og sérstaklega stærsta þéttbýlið, Provincetown, áberandi frábrugðið öðru sem finna má í fylkinu. Til dæmis er engin háhýsi þar að finna ólíkt því sem gerist nánast alls staðar í stærri bæjum og borgum landsins.

Strandlengja Cape Cod er yndisleg og væri staðurinn sunnar en hann er væri þetta Benídorm þeirra Bandaríkjamanna. En þótt vatnið sé í kaldara lagi er ekkert að því að vaða aðeins út í vatnið. Hitastig getur hlaupið yfir 30 gráður hér yfir sumartímann og þá er busl í Atlantshafinu bara þægilegt.

Bílaumferð er meira takmörkuð í Provincetown en gengur og gerist í bílalandinu Bandaríkjunum. Þannig eru gangandi vegfarendur algengir í bænum sem fyllir hann um leið af lífi og lífi fylgir stuð og stemmning. Þá eru fjölmargir hjólandi sér til yndisauka og auðvelt og ódýrt að leigja hér slíkan fararskjóta.

Ekkert er hér vandamál að finna gistingu á sæmilegu verði og enginn skortur er heldur á allfínum veitingastöðum. Humarinn frá Cape Cod er landsþekktur og fæst á öllum betri stöðum hér.

Ritstjórn Fararheill átti þess kost að fara dagsferð til Cape Cod frá Boston og fylgdi þar frumkvæði heimamanns frá Boston. Engum sem til þekkir dettur í hug að fara akandi til Cape Cod. Til þess er umferðin of mikil og leiðinleg og því taka borgarbúar jafnan ferju til höfðans. Ferðin sú er ekki alveg gefins enda kostar miðinn tólf þúsund krónur báðar leiðir en hún kemur þér beint frá Boston höfn til Provincetown á einum og hálfum tíma.

Með fyrirvara má tryggja sér ágæta gistingu í eða við Provincetown á kjörum sem eru töluvert undir hótelverðum í borgunum í grenndinni og helgarstund hér er vel varið hvort sem um er að ræða fjölskyldu eða par í rómantískum hugleiðingum.

Fyrirtaks stopp fyrir þá sem lokið hafa verslun og amstri sínu í Boston en eiga dag eða tvo eftir af ferðinni.


View Cape Cod in a larger map