S trandlengjur Mið-Ameríku standa Íslendingum lítt til boða án töluverðrar fyrirhafnar en ritstjórn Fararheill.is vill meina að það sé þess virði ef á annað borð á að leggja land undir fót.
Vissulega er flugið langt og fararstjórnin engin en þeir sem láta sig hafa það fá í staðinn heimsklassa strendur sem sjaldan eða aldrei eru yfirfullar. Menn fá góðan ferskan mat og þak yfir höfuð á verði sem hefur ekki sést í Evrópu í 40 ár og dýralíf hvort sem er á láði eða legi er margfalt fjölbreyttara en nokku sinni finnst á hefðbundnum ströndum Evrópu eða Asíu.
Eftirtaldar eru fimm bestu strendur Mið-Ameríku:
-
Bocas del Toro (Panama)
- Skammt frá landamærum Panama og Kosta Ríka er strönd og eyjar sem eiga fáa sinn líka í heiminum. Sandurinn hvítari en nýfallin mjöll og hreinari en höfuðstöðvar Ajax. Dýralíf með ólíkindum enda kóralrif úti fyrir ströndinni og þangað sækja þúsundir litríkra fiska og sjávardýra. Kafarar og brimbrettafólk finna ekki betri aðstæður og þó enginn ferðamannaiðnaður sé hér má finna litla kósí veitingastaði og bari sem reknir eru af heimafólki.
-
Caye Caulker (Belís)
- Það sem gerir Caye Caulker stórkostlega er 180 kílómetra langt kóralrif örfáa metra frá ströndinni. Sökum þess hversu grunnt það er, 5 metra dýpi, er þetta ævintýraheimur hvernig sem á hann er litið. Vísir að ferðamannaiðnaði er sprottinn upp en þó ekkert yfirdrifið.
-
Bay Islands (Hondúras)
- Þrjár eyjur 50 kílómetra undan strönd Hondúras eru paradís kafara og hér má fá réttindi til slíks fyrir smápeninga. Eyjaskeggjar eru að mestu sjómenn en ferðamennska er að skjóta rótum enda klassasvæði hvernig sem á er litið.
-
San Juan del Sur (Níkarakva)
- Ásbyrgi þeirra þarna suður frá enda er San Juan del Sur flóinn skeifulaga eins og Ásbyrgi. Fátt er til staðar nema lítill bær og vaxandi fjöldi húsa vestrænna manna sem uppgötva þessa paradís sem lýst er sem einum besta stað í veröldinni til þess „að vera.“
-
Playa Tamarindo (Kosta Ríka)
- Stórkostlegar strendur og ekki skemmir að þarna æða sjávarskjaldbökur að í hrönnum til að verpa eggjum sínum árlega. Mínusinn hins vegar að fullmikið er af ferðafólki á staðnum og Tamarindo orðinn heldur of gegnsósa af ferðamannaiðnaðinum. Fyrir vikið reyndar er enginn skortur á afþreyingu sé þess þörf.