Fyrir mitt leyti verð ég að segja að klukkan 4:30 um nótt eftir sull kvöldið áður í stórundarlegu innlendu áfengi sem bændur í Kosta Ríka hafa bruggað um áraraðir var ég engan veginn í andlegu formi til að taka viturlegar ákvarðanir. Fjandakornið;  maður er ekki einu sinni í andlegu formi til að opna augun eða pissa með setuna uppi.

Hin fallega Granada í Níkarakva. Hundrað prósent heimsóknar virði og allt kostar ekkert…

Eftir Albert Örn Eyþórsson

Það var ástæðan fyrir því að í flýtinum þessa nótt, með svo stórar stírur í augum að þær sáust á ratsjá, greip ég aðeins 42 dollara með mér. Sem er gott og blessað hefði ég verið á leið út á ströndina eða á næsta veitingastað. Það var ekki raunin. Ég var á leið til Níkarakva.

Með í för var einn félagi minn, sem hafði treyst mér til að grípa með peninga og var laus við þá sjálfur, fjórir Bandaríkjamenn og fjölskylda frá Chile. Ekki má heldur gleyma leiðsögumanninum sem var þurrari á manninn en þurr Martini .

Loftkæld tíu manna rútan var sæmileg rúmgóð og sætin ágæt. Ekki dapurt heldur að bílstjórinn hafði vit að stoppa í bakaríi áður en lagt var í hann í sex klukkustunda ferðalagið. Bakaríi sem staðsett var 600 metrum frá fyrrum aðalbækistöðvum Bandaríkjamannsins Oliver North sem eyddi miklum fjárhæðum á sínum tíma fyrir hönd Bandaríkjastjórnar til að fella úr sessi lýðræðislega kjörinn forseta Níkarakva. Það tókst.

Af því tilefni var ég einstaklega dónalegur við Bandaríkjamennina og mæltist það vel fyrir hjá bæði leiðsögumanninum og bílstjóranum sem sjálfur var frá Níkarakva. Hann reyndar skildi ekki ensku en andlitsmissir Bandaríkjamannanna yfir svívirðingum mínum fór ekkert hjá honum í baksýnisspeglinum.

Það er aðeins á tveimur stöðum sem hægt er að fara á milli Kosta Ríka og Níkarakva og það er nettur Sovétkeimur af vegabréfaskoðun á landamærunum. Þ.e.a.s. það þykir eðlilega að bíða í klukkustund jafnvel þó engar séu raðirnar. Ætlaði allt um koll að keyra þegar fallega bláu íslensku vegabréfin voru afhent. Slíkt hafði enginn séð áður og voru þó margir til kallaðir að skoða þessi undur. Landið fannst þó á korti og hlaut því að vera tiltölulega harmlaust að hleypa okkur áfram. Í heild bættist klukkustund við biðtímann við landamærin þar sem Íslendingar eru fáséðir hrafnar á þessum slóðum.

Með klink í vasa í nýju landi

Það var um það leyti sem ljós rann upp fyrir mér að við vorum þarna tveir saman komnir að fara að eyða heilum degi í nýju landi með 32 dollara í vasanum. Tíu dollarar höfðu farið í bakaríið á leiðinni. Skipt í tvennt voru það 16 dollarar á kjaft.

Ég tjáði félaganum yfirsjón mína sem tók því eins og sannur karlmaður; hann brjálaðist. Hafi ég verið skömmustulegur á þeim tímapunkti jókst það um allan helming þegar fyrsta stopp í hinni glæsilegu borg Granada var einmitt á stærsta markaði bæjarins.

Skemmst er frá því að segja að dollararnir sextán sem við skiptum á milli okkar dugðu von úr viti og er óhætt að fullyrða að engir peningar mínir síðan hafa dugað eins vel. Fyrir þessa upphæð keyptum við eftirtalið: handunnið hengirúm, litaðan keramikplatta, tvo boli, 30 kúbverska vindla í meðalstærð, átta góða og ískalda bjóra, ís, tvær samlokur og tvo miða inn á eitt stærsta safn muna Azteka sem fyrirfinnst í Mið-Ameríku.

Jamms, sums staðar duga peningarnir miklu, miklu lengra en annars staðar. Út með þig 🙂