Skip to main content

L ech Walesa! Skipasmíðarstöð! Samstaða! Líklegt er að meirihluti fólks sem ekki hefur kynnt sér sérstaklega borgina Gdańsk í Póllandi nefni þessa hluti sé spurt út í þá borg og það kannski eðlilega.

Það var einmitt hér sem fátækur rafvirki, Lech nokkur Walesa, hvatti vinnufélaga sína til verkfalla til að mótmæla kommúnistastjórn landsins og að hvorki mætti stofna til félagasamtaka né heldur fara í verkföll. Þó leiðin væri grýtt, enda Walesa margsinnis hent í fangelsi, tókst svo vel til að lokum að pólska stjórnin var sú fyrsta sem fjarstýrð var frá Moskvu sem gafst upp fyrir fólkinu og efndi til hálffrjálsra kosninga. Þar var Walesa kosinn forseti.

En fleiri mikilvæg spor í mannkynssögunni tengjast Gdańsk. Það voru deilur um hana sem hófu Seinni heimstyrjöldina en eftir þá Fyrri hafði borgin, sem þá var þýska borgin Danzig, verið gerð að fríríki. Var Pólverjum lofað aðgangi að sjó samkvæmt Versalasamningnum en þar sem flestir íbúar voru þýskir reyndist það illmögulegt. Kröfðust borgarbúar að fá að sameinast Þýskalandi í kjölfarið og undir þá kröfu tóku Nasistar þegar þeir komust til valda 1933. Framhaldið þekkja flestir vitibornir menn.

Gdańsk er höfuðstaður Pomerskie fylkis í héraðinu Kashubian Póllands. Í allri borginni að úthverfum meðtöldum búa og lifa 800 þúsund manns og er borgin fjórða stærsta borg landsins.

Með tilliti til sögunnar og þeirrar staðreyndar að hér stóð vart steinn yfir steini árið 1945 þá verður það að teljast stórkostlegt afrek að borgin er af mjög mörgum talin fallegust allra borga við Eystrasaltið. Það eru stór orð enda enginn skortur á tignarlegum og tilþrifamiklum borgum og bæjum meðfram allri strandlengju þess hafs.

Stundum er talað um Gdańsk og bæina Sopot og Gdynia sem Tricity eða Trójmiasto á frummálinu. Allir bæirnir eru meira eða minna samliggjandi en hver með sín sérkenni og eigin miðbæ. Ekki hika við að heimsækja þá alla.

Til og frá

Engum á að koma á óvart að alþjóðaflugvöllur borgarinnar er Lech Walesa Airport, Port Lotniczy im Lecha Walesi, sem er aðeins í tólf kílómetra fjarlægð frá borginni. Völlurinn er tiltölulega nýtískulegur og þar allgott úrval verslana og veitingastaða.

Inn í borgina er fljótlegast að taka leigubíl en sá rúntur mun kosta milli 1.800 og 2.400 króna eftir tíma dags og umferð.Varast skal að taka ómerkta bíla og mælislausa. Þeir eru allnokkrir slíkir hér.

Öllu ódýrara er að taka strætisvagn en þrír vagnar sem inn í borg fara stoppa hér. Eru það vagnar 110, 210 og 510 en þeir tveir fyrrnefndu fara í miðborgina en með nokkrum stoppum á leiðinni. Fargjaldið aðra leiðina 190 krónur. Miðar eru keyptir um borð en stimpla þarf miðann í þartilgerðum vélum.

Þriðji kosturinn er flugrúta, Airportbus, sem er fljótari í ferðum og stoppar í miðborginni við umferðarmiðstöð Gdańsk. Önnur leiðin kostar 380 krónur.

Hingað er líka komist með lest og rútum frá öllum stærri borgum landsins og einni frá stærstu borgum í nágrannalöndum.

Til umhugsunar: Sé þörf að skipta peningum er ráð að gera það annars staðar en á flugvellinum þar sem kjörin eru afar lök.

Samgöngur og skottúrar

Hér eru bæði spor- og strætisvagnar og nokkrir næturvagnar í þokkabót. Þeir koma sér ágætlega sé ástæða til að fara í úthverfin en fyrir meginþorra ferðamanna er velflest í göngufæri í miðborginni og auðvelt að komast yfir flest merkilegt á þremur til fjórum dögum í rólegheitum.

Miðaverð er hið sama í spor- og strætisvagna. Stakur miði kostar 95 krónur en miðar miðast við lengd ferðar og því getur verið þörf á fleirum sé farið milli hverfa eða inn í Gdanya eða Sopot.

Söfn og sjónarspil

> Ráðhúsið (Muzeum Histoyczne Miasta Gdanska) – Ekki aðeins ráðhús borgarinnar heldur og Sögusafn þar sem saga borgarinnar er kynnt í máli og myndum. Fróðlegt safn öllum er áhuga hafa á sögu og nóg er af henni hér. Sjálf byggingin er kostuleg og vel þess virði að skoða ein og sér. Flestir missa andann í Rauða herberginu, Sala Czerwona, þar sem rautt er í hólf og gólf. Upprunalega byggingin var ein þeirra sem eyðilagðist í Seinni heimsstyrjöldinni og það sem hér sést er alfarið endurgerð. Turn ráðhússins er bæði fallegur og áberandi og eðalfínt leiðamerki á þvælingi um borgina. Það er staðsett á horni Dluga og Dluga Targ. Opið mánudaga 10 til 15, þriðju- til föstudaga frá 10 til 18 og 11 til 18 um helgar. Frír aðgangur. Heimasíðan.

> Samstöðusetrið (Fundacja Centrum Solidarnosci) – Annar ómissandi staður fyrir söguþyrsta er þetta við Waly Piastowskie stræti. Hér er sögð saga andstöðu við kommúnista í borginni frá árinu 1970 og vitaskuld spilar frægasti sonur borgarinnar, Lech Walesa, hér stóra rullu. Virkilega skemmtilegt safn og fínt minnismerki um að engar breytingar neins staðar koma af sjálfu sér. Safnið var um tíma staðsett í hinni frægu skipasmíðastöð en er nú í kjallara félagsins Samstöðu í borginni. Opið 10 til 17 frá þriðjudegi til laugardags. Aðgangseyrir aðeins 330 krónur. Heimasíðan.

> Vesturskagi (Westerplatte) – Í sjálfu sér er ekki ýkja mikið að sjá á þessum litla skaga við sjávarsíðuna en Westerplatte er kyrfilega í sögubókum heimsins því hér hófst Seinni heimstyrjöldin. Þann 1. september 1939 hóf þýskt herskip skothríð á hóp pólskra hermanna hér á skaganum. Framhaldið þekkja allir. Hér er að finna eitt lítið safn og nokkra minnisvarða um þetta atvik en þess utan lítt að sjá. Því betra að slaka hér á með ferskan andvarann í andlitið sé hiti í lofti yfir sumartímann.

> Trjákvoðusafnið (Muzeum Bursztynu) – Það hljómar kannski dálítið fyndið að til sé trjákvoðusafn en furutrjákvoða úr skógum í norðurhluta Póllands og í grennd við Gdańsk er heimsþekkt fyrirbæri. Er það hennar vegna sem Gdańsk varð að bæ og síðar borg enda rafið vinsælt mjög. Hér er farið yfir hvers vegna, aðferðir við vinnslu og hvernig bærinn óx og dafnaði í kjölfar viðskipta og iðnaðar með furutrén. Efist einhver um mikilvægið nægir yfirleitt að nefna að safnið er á sex hæðum alls. Það stendur við Targ Weglowy og er aðeins opið yfir sumarmánuðina milli 10 og 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangseyrir 400 krónur. Heimasíðan.

> Völlur Arthúrs (Dwór Artusa) – Aldrei var Arthur konungur og menn hans á þvælingi mikið í Gdańsk en áhrifamiklir iðnjöfrar í borginni byggðu eitt glæsilegasta hús sem fyrirfinnst í borginni honum til heiðurs (og líka til að skála í mikilfengleika). Fyrst byggt á fjórtándu öld en hefur verið breytt og bætt síðan og nýlega lauk viðamiklu endurreisnarstarfi við húsið. Það er hneisa að yfirgefa borgina án þess að kíkja inn og dásama enda hefur vel tekist til og þótt húsið sjálft hafi skemmst í Seinni heimsstyrjöldinni björguðust flestir innanstokksmunir og þeir eru allir hér. Opið daglega frá maí til september alla daga nema mánudaga milli 10 og 18. Miðaverð 330 krónur. Heimasíðan.

> Sjóminjasafnið (Centralne Muzeum Morskie) – Eitt af fjórum söfnum borgarinnar tileinkuð sjósókn og hafsögu og hið langbesta þeirra. Gdańsk hefur alla tíð verið mikilvæg hafnarborg og er enn þann dag í dag. Hér er ekki aðeins sagan rakin heldur og skip og bátar með sögu að baki til sýnis og hér finnast einnig fjársjóðir sem fundist hafa á hafsbotni við strönd landsins. Hér má líka skoða Kranann, Zuraw, sem er endurbygging á trékrana sem reistur var til að koma möstrum og þyngri hlutum fyrir á skútum og skipum en kraninn sá var byggður árið 1367. Kannski ekki fyrir alla en öðruvísi og fróðlegt. Opið alla daga 10 til 18 frá maí til september en skemur á veturna. Safnið er við Oliwianka götu 9. Miðaverð 250 krónur. Heimasíðan.

> Minnisvarði um fallna skipasmíðamenn (Pomnik Poległych Stoczniowców 1970) – Sem fyrr segir er borgin stolt af baráttu sinna manna fyrir lýðræði á sínum tíma. Þessi 40 metra hái minnisvarði við Plac Solidarnosci er til minningar um þá verkamenn í skipasmíðastöðinni sem létu líf sitt fyrir þá baráttu. Var þetta fyrsti minnisvarðinn um baráttu gegn kommúnisma í landi þar sem kommúnistastjórn var með völd.

> Maríukirkja (Bazylika Mariacka) – Eftirtektarverðasta kirkja Gdańsk er hin gotneska Maríukirkja við Podkramarksa. Hún er alfarið byggð úr rauðum múrsteini og er talinn hin stærsta sinnar tegundar í veröldinni. Hún á líka mikla sögu því hér sóttu Samstöðumenn skjól þegar barátta þeirra stóð sem hæst. Hún var mikið eyðilögð í heimsstyrjöldinni en hefur verið endurbyggð að hluta. Ef nenna er til er þjóðráð að príla upp 400 þrepin í turn kirkjunnar en þaðan er fagurt að sjá til allra átta. Það kostar um hundrað krónur.

> Brunnur Neptúnesar (Fontanna Neptuna) – Eitt þekktasta tákn Gdańsk borgar er stytta Neptúnesar við Dlugi Targ en sá mæti guð er einnig verndardýrlingur borgarinnar. Brunnurinn stendur í einni fegurstu götu borgarinnar, Dluga, en þar bjuggu á sínum tíma auðugustu einstaklingar borgarinnar og mörg húsin við götuna því bæði falleg og litrík og hvert með sína sögu.

> Marlbork kastalinn (Zamek w Malborku) – Þó þessi mikli kastali sé í klukkustundar fjarlægð frá borginni er hann sannarlega ferðarinnar virði enda stærsti kastali að flatarmáli í heiminum og jafnframt stærsta bygging heims eingöngu úr múrsteinum. Hann er bæði risastór og gullfallegur enda vel viðhaldið og sem aðrar byggingar á þessum slóðum á kastalinn sér mikla sögu. Hann er einnig á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem heimsgersemi. Kastalinn stendur nálægt bænum Marlbork og ráð að taka frá tvær til þrjár klukkustundir til að skoða hanna allann. Opinn 9 til 19 alla daga nema mánudaga yfir sumartímann en skemur á veturna. Miðaverð 1.500 krónur. Heimasíðan.

> Gullna hliðið (Brama Zlota) – Eitt af þremur hliðum sem enn standa af gamla borgarvirki Gdańsk og þetta er hið merkilegasta þeirra þriggja. Byggt 1612 á rústum fyrra hliðs og stendur við enda Dluga götu.

> Vopnabúrið (Grand Arsenal) – Við enda Piwna strætis stendur reisuleg bygging sem áður fyrr hýsti vopnabirgðir borgarinnar en húsið er byggt árið 1600. Byggingin öll skreytt í bak og fyrir og með þeim fallegri í borginni.

> Konunglega leiðin (Droga Królewska) – Svo nefnt þar sem pólskir konungar fóru þessa leið inn og út úr borginni en þetta er meginæð borginnar og fallegasta gata hennar án alls efa. Gatan liggur meðfram ánni Motlowa og frá Gullna hliðinu og eftir Uliga Dluga niður að Dlugi Targ.

Til umhugsunar: Æði margt er í boði í borginni frá maí til september. Bátsferðir um höfnina og um skipaskurði borgarinnar eru frábærar og gefa besta sýn yfir falleg húsin við árbakkana. Hér er einnig í boði að leigja smábáta og kanóa og ráða sér sjálfur. Ritstjórn Fararheill.is mælir með slíku fullum hálsi en kaupa skal miða með fyrirvara því fleiri eru um hituna en fá oft á tíðum.

Verslun og viðskipti

Pólland almennt er ódýrt land á evrópskan mælikvarða sé hugmyndin að versla. Gdańsk er þar engin undantekning og hér er fjöldi góðra verslana eins og gerist og gengur.

Stutt er síðan fátt var hér til sölu annars staðar en á útimörkuðum sem vinsælir voru undir kommúnistastjórnum fyrr á tíð. Þetta hefur tekið miklum breytingum. Í gamla miðbænum er þó aðeins ein risaverslun. Það er Madison verslunarmiðstöðin en úrval þar er gott og opnunartími langur.

Mun fleiri verslunarmöguleikar eru í útjaðri borgarinnar þar sem allar risaverslanirnar hafa komið sér upp verslunum. Þar má líka finna útsöluverslanir, outlets, í nokkru úrvali og verðlag þar eins og gengur nokkuð ódýrara en inni í borginni. Stærsta verslunarmiðstöðin er Galeria Baltycka í Wrzeszcz hverfinu sem er í um tíu mínútna fjarlægð frá miðborginni með sporvagni.

Þá eru líka verslunarkjarnar í nágrannabæjunum Sopot og Gdynia en verðlag lægra í þeirri síðarnefndu enda er Sopot strangt til tekið millahverfið í Gdansk.

Raf, eða trjákvoða, er vitaskuld til sölu hér sem minjagripir og vinsælir mjög enda þekktir meðal heimamanna sem gull Eystrasaltsins. Fjölda ferðamannaverslana er að finna í miðborginni en verðlag tekur mið af djúpum vösum.

Matur og mjöður

Nóg af ágætum veitingastöðum bæði í Gdańsk en ekki síður í nágrannabæjunum Sopot og Gdynia. Veitingavefurinn Happzy hefur valið þá fjórtán bestu miðað við allar pyngjur og sjá má hér.

Djamm og djúserí

Pöbbar eru hér í miklu úrvali en næturklúbbar eru öllu færri og skiptast í raun milli þríborganna Gdańsk, Gdynia og Sopot. Þrír þeir vinsælustu eru Elypse Club í Gdynia, Kabaret Ewan í Gdansk og Cream í Sopot.

Frægasti barinn í bænum er Brovarnia við Szafarnia götuna skammt frá miðborginni. Þar vilja heimamenn meina að sé bruggaður besti bjór Evrópu fyrir utan Belgíu. Annar afar vinsæll drykkjubúlla er Cafe Absinthe við Świętego Ducha götu.

Líf og limir

Í miðborginni er óþarft að hafa áhyggjur af öðru en vasaþjófum sem reyndar eru vaxandi vandamál. Eru þó lögreglumenn á hverju strái og borgaryfirvöld reyna sitt besta.

Vitaskuld skal einnig viðhafa heilbrigða skynsemi á djammeríinu og skaufast ekki helfullur um götur um nætur. Það er ávísun á vandræði en nokkuð er um fíkniefnaneyslu í borginni.

View Áhugaverðir staðir í Gdansk í Póllandi in a larger map