Margt er mannanna mein. Meðal þess leiðinlegasta á ferðalögum, og æði algengt vandamál, er að borða eða drekka eitthvað sem veldur niðurgangi. En það er ekki síður stórt vandamál að koma úrgangnum ekki frá sér.

Niðurgangur er leiðigjarn fjandi á ferðalögum. Ekki síður glatað að þjást af harðlífi.

Hægðatregða fer seint í bækur sem uppáhaldsorð Íslendinga né annarra. Slíkt er mikið feimnismál og líklega þarf Avengers-hópinn allan til að yfirheyra þig með látum til að þú viðurkennir að harðlífi er vandamál í hvert sinn sem þú flýgur erlendis.

Engar opinberar tölur finnast um stærð vandamálsins en engum blöðum er um að fletta að harðlífi er æði drjúgt vandamál hjá mörgum í flugi og eftir flug. Sönnunin felst í því hve greinar um slíkt eru algengar og áberandi á lækna- og ferðavefum á netinu. Gúgglaðu hægðatregðu og Google birtir ekki nema 60 milljónir síðna um málið. Stöku rannsóknir vísindamanna benda til að hvorki fleiri né færri en 40 prósent flugfarþega þjáist af harðlífi.

Bandaríski vefmiðillinn Huffington Post skoðaði málið fyrir skömmu og leitaði til færustu lækna um bæði ástæður þessa og ekki síður hvað sé til ráða.

Fræðingar sammála um að hægðatregða á flugi sé að stórum hluta til komin sökum þess að við séum bæði yfirspennt fyrir flug og í flugi en ekki síður sökum þess að ferðalög eru yfirleitt truflun á okkar eðlilega lífi. Við Íslendingar þekkjum þetta vel með brottfarir til fjarlægra landa svo snemma að við þurfum að hoppa af stað um miðja nótt nú eða lenda heima um miðja nótt.

Sú staðreynd auk þess sem að mörgum hryllir við að fljúga er ein ástæða þess að líkaminn bregst við með þeim afleiðingum að við komum engu frá okkur á klósettinu og það jafnvel marga daga eftir flugið. Ekki bætir það neitt að við flest erum að grípa skitinn þreyttan skyndibita á leið í flug eða í fluginu sjálfu og þá oft mat sem við myndum ekki leggja okkur til munns annars nema ef líf okkar lægi við.

Hvað er til ráða?

Það er í þessu sem öðru að töfralausnir eru verri en engar.

Til þess að lágmarka álagið á líkamann fyrir flug er allra best að ná góðum svefni en það þýðir að við sem ætlum í flug eldsnemma morguns þurfum að drífa okkur í náttfötin um leið og Bogi Ágústsson lýkur við að segja kvöldfréttir. Ekkert okkar gerir það enda víðsfjarri okkar almennu hegðun.

Einhver gæti haldið að róandi lyf eða mataræði gæti hjálpað. Það getur jú ekki gert illt verra að slaka á líkamanum með öllum mögulegum þekktum ráðum og þar með töldum lyfjum sem hjálpa til við að brjóta niður matinn og koma honum út sem fyrst.

Jú, víst gæti gamla góða laxerolían hjálpað til að um hlutina en þá bætast við tvö vandamál; annars vegar að þú gætir skyndilega þurft geðveikt á klósettið á sama tíma og átján aðrir bíða eftir að komast að miðja vegu til Kanarí. Hitt vandamálið er að slíkar lausnir kalla oft á vindgang par exellens. Það er að segja exellens fyrir þig en engan annan um borð. Það er jú pínu erfitt að vera næs og kammó við samferðafólk á sama tíma og þú baunar frá þér hverri þrumunni á fætur annarri.

Trixið virðist vera að forðast kolvetnisríkan mat eins og heitan eld að minnsta kosti tólf klukkustundum fyrir flug. Það er kolvetnið sem vill út sem fyrst eftir meltingu og þá hjálpar að hafa stöffað sig takmarkað af þeim fjanda. Hluti eins og mjólkurvörur, hveiti og lauka hvers kyns á að forðast alfarið sólarhring fyrir brottför.

Annað trix er að hreyfa sig fyrir brottför og á meðan flugi stendur. Það segir sig sjálft að ef þú ert í hvíldarstöðu að glápa á gamla Seinfeld-þætti í spjaldtölvunni í fleiri klukkustundir er líkaminn ekkert að húrra sér áfram mikið. Hreyfing fyrir flug og meðan á flugi stendur er aldeilis flott prógramm. Þá reynir aðeins á hina ýmsu hluti líkamans og um leið fer meltingarkerfið á flug.

Sem sagt: heilbrigð skynsemi í þessu sem öðru 🙂